KVENNAKÓRINN Vox Feminae heldur í tónleikaferð norður í land dagana 10.­12. september. Fyrstu tónleikarnir verða á Kaffi Króki á Sauðárkróki í kvöld kl. 20.30. Á dagskrá verða íslensk og erlend lög. Þá heldur kórinn tónleika í Húsavíkurkirkju á morgun, laugardag, kl. 14. Á dagskrá verða íslensk og erlend lög auk kirkjulegra verka, m.a. eftir Brahms, Bach, Rheinberger, og Þorkel Sigurbjörnsson.
Kvennakórinn Vox Feminae á norðurslóð

KVENNAKÓRINN Vox Feminae heldur í tónleikaferð norður í land dagana 10.­12. september. Fyrstu tónleikarnir verða á Kaffi Króki á Sauðárkróki í kvöld kl. 20.30. Á dagskrá verða íslensk og erlend lög. Þá heldur kórinn tónleika í Húsavíkurkirkju á morgun, laugardag, kl. 14. Á dagskrá verða íslensk og erlend lög auk kirkjulegra verka, m.a. eftir Brahms, Bach, Rheinberger, og Þorkel Sigurbjörnsson. Kórinn mun síðan syngja við messu í Glerárkirkju, Akureyri, sunnudaginn 12. sept. kl. 11. Stjórnandi kórsins er Margrét Pálmadóttir og meðleikari Úlrik Ólason.

Vox Feminae var stofnaður haustið 1993 en þá tóku nokkrar konur úr 120 kvenna Kvennakór Reykjavíkur sig saman, undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur, og stofnuðu "antik"-hóp. Markmiðið með stofnun Vox Feminae var að syngja eldri tónlist, andlega og veraldlega. Hópurinn hefur haldið tónleika á ýmsum stöðum hérlendis. Einnig hefur hann tekið þátt í fjölmörgum tónleikum Kvennakórs Reykjavíkur.

Aðalstjórnandi frá upphafi hefur verið Margrét J. Pálmadóttir, og einnig hafa Rut Magnússon, Svana Víkingsdóttir og Sibyl Urbancic unnið með hópnum. Í kórnum starfa nú um 40 konur.

Kvennakórinn Vox Feminae og Margrét J. Pálmadóttir stjórnandi.