ÞEIR SEM spá fyrir um framtíðina eru á hálum ís þegar tölvu- og samskiptatækni er annas vegar, en flestir geta þó verið sammála um að framundan séu nýir tímar í samskiptatækni þar sem tölva og sími renna saman í eitt; fólki finnst ekki nóg að geta hringt, það vill líka halda símanúmerum til haga, geta tekið við skilaboðum og sent, sótt sér upplýsingar, lesið tölvupóst og kannski kíkt á Netið.
Samruni síma og tölvu Tölvur Á ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins í síðustu viku hélt tölu útsendari sænska símaframleiðandans Ericsson. Árni Matthíasson hlýddi á Fredrik Carlsson frá Ericsson, sem kynnti frekari samruna síma og tölvu. ÞEIR SEM spá fyrir um framtíðina eru á hálum ís þegar tölvu- og samskiptatækni er annas vegar, en flestir geta þó verið sammála um að framundan séu nýir tímar í samskiptatækni þar sem tölva og sími renna saman í eitt; fólki finnst ekki nóg að geta hringt, það vill líka halda símanúmerum til haga, geta tekið við skilaboðum og sent, sótt sér upplýsingar, lesið tölvupóst og kannski kíkt á Netið. Víst er það hægt í dag, en flest apparöt til þess eru ekki nema fyrir þá sem hafa djúpa vasa og stóra; of dýr og of stór um sig. Nokia hefur sýnt að hægt er að koma í vasann því sem áður er nefnt og fleiri munu fylgja í kjölfarið. Á CeBIT sýningunni í Hannover snemma á árinu var komið eggjahljóð í alla símaframleiðendur og marga tölvusmiði enda vilja tölvuframleiðendur eðlilega sneið af þeirri köku og hugbúnaðarfyrirtæki ekki síður sem vonlegt er. Farsímafyrirtækin standa aftur á móti með pálmann í höndunum, þau þekkja markaðinn best allra og ólíkt helstu tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum sem rembast við að troða stórum tækjum og flóknum niður í símastærð fara farsímarisarnir þá leið að bæta möguleikum við í síma sína. Á gagnlegri ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins á dögunum og tók meðal annarra til máls Fredrik Carlsson, starfsmaður Ericsson, og reifaði nýja tíma í símatækni. Vegvísar í breyttu landslagi tölvusímatækni eru þekkt fyrirbæri eins og TCP/IP-samskiptastaðlarnir, en einnig nýrri hugmyndir sem margar eru þegar orðnar að veruleika eins og Symbian/EPOC, WAP og GPRS sem Carlsson lýsti skilmerkilega. Microsoft vill gjarnan að Windows CE komist á þennan lista en hefur gengið illa að sannfæra farsímaframleiðendur um ágæti þess, því eins og einn frammámanna Ericsson orðaði það fyrir skemmstu; símnotendur munu ekki kunna því vel að þurfa að bíða með að svara í símann á meðan stýrikerfið er í minnisvandræðum. Að auki hentar Windows CE heldur illa fyrir lítil apparöt eins og lófatölvur eða farsíma; ekki ýkja stöðugt, óhentugt fyrir litla skjái og of hægvirkt. Með helstu kostum þess er stuðningur við litaskjái, en það kemur ekki að ýkja miklum notum í vasa/lófatölvu eða farsíma, þar sem litaskjárinn spænir upp rafhlöður. Á meðan ekki verður komist lengra í rafhlöðutækni, og þar eru engin stór stökk framundan í núverandi tækni, eru litlar líkur á að farsímanotandi sætti sig við síma sem þarf að hlaða tvisvar á dag. EPOC er betri kostur, stýrikerfi hannað fyrir smátölvur, enda þróað á vegum Psion-fyrirtækisins breska, sem framleiðir gríðarlega vinsælar samnefndar vasatölvur. Þeir Psion-menn vissu hvaðan á þá stóð veðrið þegar þeir gengu til samstarfs við helstu farsímaframleiðendur heims, Nokia, Ericsson og Motorola, um stofnun sérstaks fyrirtækis sem þróa myndi EPOC inn í nýja tíma. Fyrirtækið nýja heitir Symbian og hefur þegar gefið út útgáfu 5 af EPOC, ER5, sem felur meðal annars í sér Java- stuðning og ýmsar endurbætur vegna vefvinnslu. Símskeyti til Falklandseyja Símaframleiðendur kunna ekki síst að meta EPOC vegna þess að þeir geta breytt ásýnd stýrikerfisins eins og þeim sýnist, sem seint yrði samþykkt vegna Windows CE. Eftir tölu sína á fundi Skýrslutæknifélagsins dró Fredrik Carlsson úr pússi sínu nýja gerð farsíma frá fyrirtækinu, R380, sem byggist á EPOC og gefur meðal annars möguleika á að senda og sækja tölvupóst eða símbréf án þess þó að vera með meira í vasanum en smágerðan síma. Sá er væntanlegur eftir áramót, en annað dæmi um Symbian-samstarf Ericsson er vasatölva sem svipar mjög til Psion, en með nokkuð breyttu stýrikerfi og kemur á markað á næstu vikum. Eins og getið er hafa menn verið iðnir við að boða nýja síma og fullkomnari en minna verið um efndir. Þar kemur sitthvað til, ekki síst það að hugmyndirnar hafa verið á undan tækninni, eins og oft vill vera; það hefur tekið sinn tíma að móta tæknileg atriði og berja saman hugbúnaðarstaðla. Ekki er til að mynda hlaupið að því að gefa aðgang að Netinu á litlum símaskjá, minni í símunum er takmarkað og tölvupóstnotendur verða að temja sér að senda símskeyti til Falklandseyja ef ekki á illa að fara, grafík kemur eðlilega ekki vel út á eintóna skjám og svo má telja. Ýmsu er og ósvarað um verðlagningu á þjónustunni; er nóg fyrir símafyrirtæki að hirða aurana af meiri símanotkun, eða vilja þau sækja kostnaðinn af aukinni þjónustu á annan hátt. Líklega munu svör við þessum spurningum koma að sjálfu sér um leið og símarnir nýju koma á markað; þannig hefur það jafnan verið með tæknina, að fæstir skilja til hvers hún er brúkleg og hvers hún er virði fyrr en hún er komin í hendurnar á fólki.