Landslagsmyndir frá Íslandi verða á ljósmyndasýningu Maríu Guðmundsdóttur í París. Kristín Ómarsdóttir ræddi við Maríu af þessu tilefni.
Sagði mér land Landslagsmyndir frá Íslandi verða á ljósmyndasýningu Maríu Guðmundsdóttur í París. Kristín Ómarsdóttir ræddi við Maríu af þessu tilefni.

ÞAÐ neitar því enginn að hlutfall sólarljóssins á milli árstíða á Íslandi er fremur ójafnt og að liturinn sem kemur upp í hug þess sem þekkir landið þegar hann minnist þess er ekki litur sem þætti vænlegur til auglýsinga. Þó er aðdráttarafl hans óumræðilegt. Þær hliðar á náttúru Íslands sem þeir sem lifa með henni reglulega þekkja jafnvel og andlit sinna nánustu, myrkrið og veðurhamurinn, eru meðal annarra myndefnið sem María Guðmundsdóttir ljósmyndari hefur valið sér að þessu sinni. En 24. september n.k. verður opnuð sýning hennar í Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París á landslagsmyndum, í tímalausri merkingu þess orðs, frá Íslandi. Ég endurtek orðið tímalaus, því svart-hvítar ljósmyndir sem einnig prýða nýútkomna ljósmyndabók Maríu, en hún kemur út í tilefni sýningarinnar bæði á ensku og frönsku og heitir Sagði mér land, virðast ekki draga dám af einum ákveðnum samtíma um leið og þær eru samtíða mannlegum tilfinningum. Myndirnar eru dulúðugar, erótískar, daprar, hlýjar, með húmor. En hér er best að stoppa og segja ekki meir. Þær eru teknar að kvöldi, að morgni, að vetri, að sumri, af roki, af því smáa og af því stóra í íslenskri náttúru. Sjón er sögu ríkari. María hefur helgað líf sitt ljósmyndum og starfað bæði sem fyrirsæta og ljósmyndari, að mestum hluta erlendis. Á síðustu árum hafa ljósmyndir hennar fært sig frá tísku- og auglýsingaljósmyndun og að því sem kalla mætti persónulegri viðfangsefnum, þó allt í heiminum sé jafn persónulegt. Árið 1994 kom út eftir Maríu ljósmyndabókin Ferðin heim þar sem hún sneri sjónum sínum að bernsku- og uppvaxtarslóðum. Svart-hvítar minningar "Ég er alin upp á stað þar sem er lítið gróðurlendi," segir María þegar hún er spurð um aðdraganda sýningarinnar. "Í minningum mínum er Ísland í svart-hvítu. Ég man fátt í lit. Ég man ekki hvernig kjólarnir mínir voru á litinn en þó man ég að fyrsta rúmið mitt var grænt. Þessar svart-hvítu minningar mínar og ást mín á svart-hvítum ljósmyndum, sem mér finnst oft vera rólegri en litmyndir og gefa manni dýpra næði til nálgunar, voru upphaflegar hugmyndir mínar að sýningunni. Þegar ég var að taka myndirnar í bókina Ferðin heim fékk ég áhuga á að taka fleiri landslagsmyndir. Þá keyrði ég um landið, varð algjörlega hugfangin og vildi meira. Svo sátum við eitt sinn þrjár vinkonur í París og vorum að ræða það hvernig ég gæti látið drauminn um að halda sýningu með landslagsmyndum frá Íslandi rætast. Þá mundi ein okkar eftir sýningarsvæðinu í UNESCO og nokkru síðar gekk ég á fund konunnar sem ræður yfir allri skipulagningu svæðisins. Ég sagði henni frá hugmyndinni, annað var ekki komið af stað, og þegar ég kvaddi sagði ég: Þú manst kannski eftir mér, ég er konan sem kom ekki með nafnspjald." Og þarmeð var staðsetning sýningarinnar komin. Í aðalinngangi byggingarinnar verður hannað nýtt rými inn í tíu metra breiðan og þrjátíu metra langan gang með fimm metra lofthæð. Gluggarnir yfirdekktir og um það bil tveggja metra langar og breiðar ljósmyndirnar hengdar upp á álplötum. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur heldur sýningu í UNESCO í París en áætlað er að um fimm þúsund manns fari þar um í viku hverri. Sýningin stendur til 6. október. Óvæntar uppákomur María heldur áfram að segja frá vinnu sinni að sýningunni: "Svo lagðist ég í ferðalög um landið og þá kynntist ég mörgu yndislegu fólki. Þetta þarf ekki að móðga neinn en stundum mætti halda að í landinu búi tvær þjóðir, borgarbúar og landsbyggðarfólk. Þegar ég kom á Norðurfjörð dró hreppstjórafrúin þar fram þessi bjúgu sem hafa verið í draumum mínum æ síðan. Og í húsi þeirra svaf ég eins og á hóteli. Alls staðar var ég velkomin bæði á virkum degi og helgum og þegar aðstæður urðu viðsjárverðar. Fyrir Páli Samúelssyni hjá Toyota-umboðinu velti ég einum bíl en Páll var svo vænn að lána mér jeppa. Án hans stuðnings hefði ekkert af þessu verið mögulegt. Á leiðinni frá Höfn í Hornafirði í bæinn missti ég bílinn í hálku og lausamöl. Hann fór þrjár og hálfa veltu og það vildi mér til happs að ég var í belti en svo var alls ekki alltaf, því oft fór ég svo stuttar vegalengdir að mér þótti ekki taka því að spenna beltin. Bíllinn kom niður á fjórum hjólum og ég kom mér út, settist niður og þurfti að gráta. Þegar fólkið af næsta bæ kom hlaupandi að kepptist ég við að harka af mér, ekki var ég nú vankaðri en það. Heima á bænum barst svo á móti mér ilmur af kaffi og vöfflum en mér var ekki boðið til veislunnar heldur vildi húsfreyjan á bænum að ég leggði mig. Ég vildi fá að hringja í Pál og lögregluna en á milli símhringinga þáði ég boð konunnar og lagðist fyrir. Þar sest þá konan í stól við hlið mér og byrjar að prjóna. Ég er dálítið undrandi á þessu öllu saman, hinni prjónandi konu, ilminum í loftinu og hvers vegna ég fái ekki að smakka á kaffinu og vöfflunum. Eftir rúman klukkutíma stóð konan svo upp og bauð mér að koma og bragða á trakteringunum. Hún hafði viljað gefa mér tíma til að fá áfall eftir bílveltuna áður en ég settist að borðum. Sumt fólk veit alltaf hvernig á að bregðast rétt við." Háskinn er líka góður "Í upphafi ferðalaganna átti ég það til að vakna eldsnemma og hugsa með mér: Best að fara í ferðalag. En enginn vissi af mér. Ég var ekki með bílasíma og fór um óbyggðirnar að vetrarlagi án þess að blikna. Svaf í bílnum og fór að jafnaði í tíu daga ferðir. Ef eitthvað hefði komið fyrir hefði enginn saknað mín, því allir hefðu ályktað sem svo: Já, hún María, hún er bara í París. Svo hefði ég fundist næsta vor!" En María fékk sér síma í bílinn en lenti þó oftar en ekki í ófærð og langri bið úti á miðjum vegum eftir að veðrinu slotaði. "Þegar á leið var mér farið að líða svo vel einni bara einhvers staðar. Það var ekki fyrr en eftir á að ég uppgötvaði hvað ég hafði komist langt frá mannlífinu og hvað ég hafði notið þess óskaplega. Er maður kannski geðveikur þegar maður vill ekki komast til byggða? Sumir myndu örugglega segja það. Og kannski slapp ég naumlega. Ég held að fyrir alla sé það gott að fara á fjöll og vera með sjálfum sér. Með háskanum ögrar maður líkamlegri og andlegri getu sinni. Maður upplifir einhvers konar trúarlegt ástand, finnur fyrir ódauðleika á sama tíma og maður er mjög meðvitaður um að vera dauðlegur. Og hin dauðlega vitund manns verður ódauðleg. Tilfinningunni fylgir mikill friður. Maður veit að allt er í stakasta lagi. Að það er ekkert að lífinu, það er aðeins maður sjálfur sem flækir það." Dýrmætt land Og við þessar aðstæður tókstu myndirnar á sýningunni og í bókinni. Hverjar voru vinnureglur þínar við myndatökuna?

"Ég kýs að gera hlutina á einfaldan hátt. Ég tók myndirnar án þess að bíða ljóss og skugga. Ég tók það sem ég sá eins og það kom fyrir á þeim degi sem ég var á staðnum. Ég planaði enga mynd fyrirfram. Allar myndirnar eru teknar vegna þess að ég sá eitthvað sem snerti mig tilfinningalega. Þegar ég seinna var að vinna að myndunum úti í París fannst mörgum sem fylgdust með mér þeir skynja mystíska tilfinningu í þeim. En það er ekki mitt verk. Það er verk náttúrunnar. Þó valdið sé hennar er áreitni hennar engin." Og María heldur áfram: "Ég elska landið eins og það kemur fyrir. Mér finnst auðnin, sandarnir og rofabörðin falleg og veðrið æðisgengið. Ég vil ekki breyta landinu, hvorki með því að gera það að einhverri Svíþjóð, því þó ég hafi ekkert á móti trjám þá byrgja þau útsýnið, eða með því að reisa hér stóriðjur. Og hvað kæmi næst? Er ekki vel borgað fyrir kjarnorkuúrgang? Nei, Íslendingar þurfa ekki að skammast sín fyrir landið og fara hjá sér gagnvart útlendingum þótt hér sé alltaf rigning og skrítið og ófyrirsjáanlegt veður. Ísland verður alltaf dýrmætara og dýrmætara. Önnur lönd eru illa farin af mengun og hvers vegna að taka það versta frá þeim og flytja það til Íslands? Ég vona svo sannarlega að myndirnar mínar verði aldrei heimild um heim sem hvarf einn góðan veðurdag vegna örþrifaráða og áhuga á skyndigróða." Draumarnir eru tækifærin Þegar þetta er skrifað er óvíst hvort sýning Maríu muni rata til Íslands. En bókinni, sem hún gefur út sjálf og prentuð var í Odda, mun Mál og menning dreifa hér á landi. Allt samstarf varðandi bókina hefur gengið mjög vel. Hvað tekurðu þér næst fyrir hendur, María? "Það hefur verið skemmtilegt og lærdómsríkt að koma sýningu og bók á koppinn en nú klæjar mig í fingurna að byrja aftur að mynda og hætta að hlaupa um allar trissur með þessar myndir hér. En í stað þess að láta eitthvað uppi um næsta draumamyndefni mitt, eflaust af hjátrú, vil ég hvetja alla til þess að hika ekki við að fylgja draumum sínum. Sumir segja að fólk hafi ekki sömu tækifæri og þegar það er ungt og sumir trúa þessu. Mig langar til þess að minna fólk á að láta ekki slíkar fullyrðingar stöðva sig. Það er nóg að eiga draum. Því draumarnir eru tækifærin."

Morgunblaðið/Árni Sæberg

María Guðmundsdóttir