Dönsk fyrirtæki sem flytja út vörur eða þjónustu til Svíþjóðar hafa hagnast vel á auknum styrk sænsku krónunnar gagnvart þeirri dönsku, að því er fram kemur á vefsíðu Dagens Industri. Á þessu ári hefur sænska krónan hækkað um 10% í verði miðað við dönsku krónuna og er ástæðan sú að gengi dönsku krónunnar er bundið við evru, sem hefur átt undir högg að sækja á gjaldeyrismörkuðum,
Danir hagnast á sænsku krónunni

Viðskiptajöfnuður orðinn hagstæður Dönum

Dönsk fyrirtæki sem flytja út vörur eða þjónustu til Svíþjóðar hafa hagnast vel á auknum styrk sænsku krónunnar gagnvart þeirri dönsku, að því er fram kemur á vefsíðu Dagens Industri . Á þessu ári hefur sænska krónan hækkað um 10% í verði miðað við dönsku krónuna og er ástæðan sú að gengi dönsku krónunnar er bundið við evru, sem hefur átt undir högg að sækja á gjaldeyrismörkuðum, en gengi sænsku krónunnar er fljótandi og hefur hækkað mikið gagnvart Evrópumyntum á síðustu mánuðum. Í byrjun árs kostaði dönsk króna 1,27 krónur sænskar en nú liggur gengið nálægt 1,15.

Styrkur sænsku krónunnar hefur valdið því að viðskiptajöfnuður milli landanna hefur snúist Dönum í hag en hann hefur yfirleitt verið þeim neikvæður. Innflutningur frá Svíþjóð hefur þannig dregist verulega saman, eða um 10,5% frá áramótum.

Það eru einkum danskir undirverktakar sænskra fyrirtækja á borð við Ericsson, Saab, Volvo og ABB sem hafa makað krókinn að undanförnu. Framámenn í dönsku viðskiptalífi telja reyndar að aukin eftirspurn Svía eftir dönskum vörum og þjónustu stafi ekki eingöngu af hagstæðu gengi heldur einnig þeim uppgangi sem nú er í sænsku efnahagslífi.