STJÓRN Byggðastofnunar hefur aðeins staðfest eina úthlutun byggðakvóta en tillögur viðkomandi sveitarstjórna eru nú óðum að berast stofnuninni og segir forstjóri hennar að væntanlega geti stjórnin fjallað um sem flestar tillögur undir lok mánaðarins.
Úthlutun byggðakvóta ekki lokið Tillögur staðfestar

undir mánaðarlok

STJÓRN Byggðastofnunar hefur aðeins staðfest eina úthlutun byggðakvóta en tillögur viðkomandi sveitarstjórna eru nú óðum að berast stofnuninni og segir forstjóri hennar að væntanlega geti stjórnin fjallað um sem flestar tillögur undir lok mánaðarins.

Byggðakvótanum var úthlutað til einstakra byggðarlaga í lok júlí. Þar af var Ísafjarðarbæ úthlutað samtals 387 tonnum en bæjarstjórnin ákvað að kvótinn félli allur í skaut Þingeyringa og hefur stjórn Byggðastofnunar staðfest úthlutunina . Sveitarstjórnir annarra sveitarfélaga sem fengu úthlutað byggðakvóta hafa síðan þá haft endanlega úthlutun hans til umfjöllunar.

Stefnt var að því að ljúka endanlegri úthlutun fyrir upphaf nýs fiskveiðiárs þann 1. september sl. en að sögn Guðmundar Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, varð snemma ljóst að meiri tíma þyrfti til að ganga frá málunum. Hann segir sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga hafa verið í sambandi við stofnunina og unnið vel að þessum málum með það að markmiði að byggðakvótinn nýttist sem best í styrkingu landvinnslunnar á hverjum stað. Hann segir að næsti stjórnarfundur Byggðastofnunar verði væntanlega haldinn þegar nær dregur mánaðamótum og vonandi geti stjórnin þá fjallað um sem flestar tillögur.