Óvæntur glaðningur í formi tveggja frábærra sýninga beið Braga Ásgeirssonar, listrýnis blaðsins, í Hayward-sýningarhöllinni.

List í Lundúnum

Óvæntur glaðningur í formi tveggja frábærra sýninga beið Braga Ásgeirssonar , listrýnis blaðsins, í Hayward-sýningarhöllinni.

ENN sem komið er veit ég ekki hve almennu listhúsin eru mörg í Lundúnaborg, hef ei heldur gefið mig eftir að upplýsa það. Er ekki kominn svo langt í rannsóknum mínum, en kannski verður það næst á dagskrá. Skoðunarferð um almenn listhús borgarinnar er stórum tímafrekara og flóknara mál en innlit á söfn, í öllu falli fyrir ókunnuga sem eru að átta sig á hlutunum í stórborginni. Og sé litið til fjölda stóru safnanna og þeirra úrvalssýninga sem þau hafa upp á að bjóða hverju sinni og eru allajafna tilefni heimsókna minna þangað, er eðlilegt að eitthvað mæti afgangi. Eins og í fleiri heimsborgum kemur mánaðarlega út handhægur bæklingur, upp á allt að 80 síður, sem gott er að nálgast og fæst fyrir lítinn eða engan pening "Galleries, -focus edinborg perth aberdeen - & uk listing previews".

Bráðnauðsynlegur öllum sem vilja vita hvað er að gerast, með upplýsingum um söfn, listhús og sérsvið þeirra, ásamt hverfisuppdráttum, hvar þau eru kyrfilega merkt inn. Þá er þar fjöldi auglýsinga um sýningaframnínga í Lundúnum og um allt England, ásamt ýmsum skráðum fróðleik um það sem helst er á baugi. Æskilegt er að forvitnir festi sér einnig hvíta rit DK (Dorling Kindersley) útgáfunnar "Eyewitness, Travel Guide" sem inniheldur allt um listhús, söfn, leikhús, byggingarlist, veitingahús, gönguferðir og hótel, að ógleymdum prýðilegum borgarkortum og upplýsingum um neðanjarðarlestir.

Á þetta er einungis minnst vegna þess að með þetta í höndunum ásamt yfirlitskorti, sem hægt er að nálgast á öllum hótelum og ferðaskrifstofum endurgjaldslaust, hafa menn skilvirka yfirsýn yfir það mikilvægasta sem gerir óþarfa alla smápésa sem hvarvetna er verið að ota að manni og léttir einungis pyngjuna.

Síðast er rýnirinn var á vettvangi var svo mikið á dagskrá, að hann náði ekki einu sinni í skottið á Tate-safninu, sem hann skoðar þó allajafna og helst í bak og fyrir. Það varð til þess að hann tók fljótlega stefnuna þangað, eða strax að lokinni skoðun Sumarsýningarinnar og sjálfsmynda Rembrandts. Eins og margur veit er verið að stokka upp hlutunum, endurnýja safnið og flytja hluta þess í ný og glæsileg viðbótarhúsakynni í nágrenni Pálskirkjunnar, og var því nokkuð um rask í byggingunni.

Yfirþyrmandi ofgnótt hins tæknivædda nútíma í hólf og gólf hefur gert safnagesti til muna forvitnari um fortíðina, sem er næstum orðin sama einangraða fágætið og nútímalistin var fyrir hálfri öld! Það kemur berlega fram á söfnum eins og Tate, sem eru yfirfull af dýrgripum úr fortíð og nýliðinni tíð, ásamt því að kynna núið á fullu. Daginn sem mig bar að var þannig fleira fólk á öllum aldri í eldri deildunum, en þeim nýrri og unga fólkið sérstaklega áhugasamt. Þróunin hefur þannig orðið nokkuð önnur en margur spáði, og kynslóðabilið svonefnda varð ég lítið var við, hvorki í sýningar- né veitingasölunum, jafnt andi sem efni krefjast næringar, eldsneytis. Á aðalsýningu safnsins að þessu sinni, sem með rentu bar yfirskriftina, Abracadabra, var skírskotunin til verundarinnar og hvunndags nútímamannsins á fullu, skilgreinist sem verundarbrellur, ontologiske gimmiks, og eru sjóðheitar staðreyndir "hit" í núlistasöfnum heimsins, sem yngri kynslóðir hafa eignað sér, fræðingar lyft undir, og vei þeim sérvitringum sem ekki eru sammó! Skoðendur voru hins vegar á öllum aldri, ekkert kynslóðabil þar frekar en í deildum eldri listar, trúlega þunnskipaðast í deildum módernismans, þrátt fyrir frábært samsafn listaverka og sérsýninga á Donald Judd og Cy Twombly úr einkasafni Froelich, en það hefur sínar orsakir. Módernisminn er nýorðinn að gildri staðreynd úr núliðinni tíð í huga fólks, ekki forvitnileg nýjung lengur, þá hefur honum verið haldið stíft fram auk þess að hver stórsýningin hefur tekið við af annarri undanfarna áratugi. Hins vegar hefur athyglin beinst að listamönnum sem minna bar á, voru ekki í náðinni á tímabilinu, eru því óvæntari og ferskari í viðkynningu. En þessi uppgötvunarárátta hefur þó á stundum farið út í öfgar er nýútskrifaðir í fræðunum og uppteknir við að finna upp heita vatnið, eru stundum í raun að kynna heimsþekkta listamenn, þótt minna hafi borið á viðkomandi meðan þeir sjálfir voru í skóla, annað uppi á teningnum. Öll uppstokkun er hins vegar af hinu góða. Strax og komið er inn í forsal Tate, rekur gesturinn augu í útstoppaðan asna er hangir í loftinu, sem eins konar kennimark sýningarinnar og er eftir Maurizzio nokkurn Cattelan. Vekur undrun, en einnig sterk viðbrögð og blendnar tilfinningar hjá fólki, trauðla sérlega uppörvandi sjón á listasafni, auk þess sem auglýsingagildi gjörningsins er tvíbent, fælir allt eins frá eins og hitt. Sjálf sýningin er líkust sjónrænum kabarett, þar sem öllu ægir saman, smíði, leiktækjum, myndböndum með skondnum gjörningum og grófum erótískum athöfnum í bland. Eitt vakti sýnu mesta athygli, þannig að nokkur biðröð myndaðist við hús sem reist var yfir gjörninginn er bar nafnið, Undursamlega sýnin, The Wonderful Show, og var eftir sama Maurizio Cattelan. Lét hafa mig að fara í biðröðina þótt hún rétt silaðist áfram svo reyndi á þolinmæðina. Ferhyrnt op í andlitshæð var á framhlið byggingarinnar, nægilega stórt fyrir höfuð skoðandans. Gjörningurinn byggðist á manni í hvítklæddum nærklæðum að fremja ýmis sprell og skringilegheit á laugarbarmi með stórt sjónvarp á fullu í bakgrunni sem hann klifraði reglulega í og úr. Laugin var í raun hálft stórt baðkar þar sem sá í höfuð af manni/konu sem beindist að trúðnum á laugarbarminum. Kikkið í gjörningnum var, að það var höfuðið af þeim sem hverju sinni horfði inn um gatið. Óneitanlega snjallt, viðbrögðin kómísk þegar viðkomandi uppgötvuðu sjálfa sig í baðkarinu sem hluta gjörningsins. Vöktu þau að sjálfsögðu athygli og forvitni annarra sýningargesta í nágrenninu, hér er þó stóra spurningin hvort maður sé á listsýningu eða í Tívolí. ­ Til 26. september.

Dularfullt hve oft ég hef lent í skýfalli að lokinni heimsókn á Tate og svo var einnig tilfellið að þessu sinni, skaust inn í aðvífandi leigubíl og bað bílstjórann um að aka mér að Old Vic, en ég átti erindi á listhús við hlið þess. En eitthvað hefur framburði mínum verið áfátt því að hann ók mér að Aldwich-leikhúsinu! Beið af mér rigninguna í notalegu veitingahúsi við hlið þess og þar sem liðið var á daginn og ég í næsta nágrenni við Covent Garden og Óperuna, þótti mér vænlegast að kynna mér hið nafntogaða hverfi og uppskar ríkulega. Fyrr en varði var ég kominn inn í leikhússafn, sem ég hafði ómælda ánægju og lærdóm af að skoða, og frumlegur útimarkaðurinn í nágrenninu þar sem margt sérkennilegt og eigulegt er jafnan á boðstólunum var svo ekki síður áhugaverður fyrir augað, að ekki sé minnst á húsagerðarlistina í hverfinu. Í býtið daginn eftir tók ég neðanjarðarlest að Waterloo-stöðinni, sem er sú langsamlega fullkomnasta í borginni sem ég enn hafði komið í og vildi gjarnan skoða betur. Stuttur spölur er þaðan að Old Vic-leikhúsinu, þar sem sá óviðjafnanlegi Peter O´Toole virðist enn einu sinni fara á kostum. Eftir erindi mitt í listhúsið sem hér er ekki til frásagnar gekk ég í kringum bygginguna og tyllti tá í fordyrinu. Leiðin lá þarnæst niður að Thamesárbökkum og að Hayward-sýningahöllinni, þar sem mín beið óvæntur glaðningur í formi tveggja frábærra sýninga. Annars vegar yfirlitssýningar á verkum ameríska málarans Chuck Close, sem skapað hefur sér sérstöðu fyrir ljósmyndaraunsæi í verkum sínum. Um þrjátíu ára skeið hefur Close einbeitt sér að gerð andlitsmynda, iðulega sjálfsmynda, en einnig af félögum sínum eins og málurunum Roy Lichtenstein og Alex Katz, þeirri nafnkenndu galdrakonu ljósmyndatækninnar, Cindy Sherman og tónskáldi naumhyggjunnar Philip Glass. Afbragðs vel upp settur og áhrifamikill framníngur hvert svo sem álit hvers og eins er á verkum listamannsins, sem berlega mátti merkja á viðbrögðum sýningargesta sem voru allmargir og göptu sumir af undrun. Close hefur komið sér upp sérstæðu punktakerfi, sem hann leikur sér að á ýmsa vegu með þeirri yfirburðatækni, virtositet, að margur fellur í stafi og veit hreint ekki hvað hann á að segja. Hér birtist listamaðurinn í öllu sínu veldi í stað einnar eða fleiri mynda á risasýningum og kaupstefnum og það var allt annar handleggur, hreint yfirþyrmandi. Nánar verður hermt af þessum listamanni, lífi hans og list.

Hin sýningin kom líka frá Bandaríkjunum og hafi maður undrast tæknina hjá Close beið manns nú enn stærri skammtur, þótt með allt öðru sniði væri. Um er að ræða ljósmyndir frá ferðum Apollo-geimferjanna, sett upp í tilefni þess að þrjátíu ár eru frá fyrstu tunglferðinni, og nefnist framkvæmdin Full Moon. Allt í senn er um að ræða ljósmyndir sem teknar voru af jörðinni okkar utan úr geimnum, tunglinu, og á því, og ekki var sýningin síður afburða fagmannlega sett upp en hin. Ljósmyndirnar eru flestar stórar, í sumum tilvikum ná þær yfir heilu langveggina og svo áhrifaríkar í einfaldleika sínum að maður stóð hvað eftir annað tímum saman dolfallinn og rýndi í þær. Ljósmyndabúnaðurinn mun hafa verið sá dýrasti sem um getur, einkum í tunglferjunni og er þetta sýnishorn 32.000 mynda á filmum sem NASA-geimferðastofnunin á í fórum sínum. Allar myndirnar eru unnar í digital-hátækni og valdar af ljósmyndalistamanninum Michael Licht, og sýningin sett upp í tilefni útkomu veglegrar bókar. En þótt bókin sé hin vandaðasta er víðs fjarri að myndirnar nái þeim tökum á skoðandanum og sjálf sýningin, er einungis ómur hennar.

Hvað sem Rembrandt og öðrum snillingum fyrri alda líður, verður þetta mér ógleymanlegasta lifunin í allri ferðinni ­ drjúgur skyldleiki með málverki skuggaskiptanna, clair-obscur, og tunglmyndunum, en hér hafa þær síðari vinninginn fyrir óræði, víddir og afmarkaðan tærleika. Báðum sýningunum lýkur 19. september.

­ Rýninum var innanbrjósts líkt og hann stæði frammi fyrir eilífðinni og tíminn stæði kyrr og þótt margt fleira væri á listanum þennan síðasta dag dvalarinnar var þetta nógu stór skammtur. Enginn ástæða að flýta sér tiltakanlega með allar þessar víðáttur, óræðu kyrrð og sjónrænu þögn fyrir framan sig, þar sem tíminn stóð kyrr og ekkert kvikt í sjónmáli að tunglförunum undanskildum; einungis himingeimurinn, hnötturinn okkar, tunglið, dúnmjúkar heildir, djúpir mettaðir skuggar, skuggaskipti og firrð. Ringlaður reikaði rýnirinn niður að bökkum Thames og naut útsýnisins, horfði þakklátur á kúpul Pálskirkjunnar í fjarska, sem hann hafði loks náð að sækja heim daginn áður á leið á Barbican-listamiðstöðina, sem reyndist þá lokuð fram í nóvember. Hugsaði lengi lengi um allífið og almættið . . .

Ljósmynd/Bragi Ásgeirsson Asninn í anddyri Tate-safnsins, tákn og vegvísir á sýninguna Abracadabra, var fyrst á sýningu í Torino 1997, er eftir Maurizio Cattelan og ber nafnið Tuttugasta öldin.

Skondni gjörningurinn, A Wonderful Show, er einnig verk Maurizio Cattelan, 1996.

Ein áhrifaríkasta myndin á sýningu Chuck Close var af hinni nafnkenndu Cindy Sherman. Cindy, olía á léreft, 1988, 259. 1 × 13,4 sm.

Jörðin rís upp yfir sjónrönd mánans. Myndin var tekin af William Anders úr Apollo 8 og var þetta í fyrsta skipti sem mannlegt auga leit þá sjón.

Landslag á mánanum; Kenneth Mattingly, Apollo 16, 1972.

Jörðin fjarlægist 16. apríl 1972. Enn geta geimfararnir á Apollo 16 greint stóran hluta Ameríku og Kanada; Kenneth Mattingly 16.­27. apríl, 1972.