MEIRIHLUTI bandarískra kjósenda vill, að Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, og Hillary, eiginkona hans, dragi sig í hlé úr opinberu lífi er kjörtímabilinu lýkur. Kemur þetta fram í skoðanakönnun sem Reuters-fréttastofan og WHDH, sjónvarpsstöð í Boston, stóðu að og birt var í gær.

"Clinton- þreyta"

í Bandaríkjunum

Boston. Reuters.

MEIRIHLUTI bandarískra kjósenda vill, að Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, og Hillary, eiginkona hans, dragi sig í hlé úr opinberu lífi er kjörtímabilinu lýkur.

Kemur þetta fram í skoðanakönnun sem Reuters -fréttastofan og WHDH , sjónvarpsstöð í Boston, stóðu að og birt var í gær. Vildu 54%, að þau hjónin hættu afskiptum af stjórnmálum en 40% kváðust geta hugsað sér Hillary sem öldungadeildarþingmann. Hefur hún ákveðið að bjóða sig fram í New York næsta haust.

Nærri 60% repúblikana vilja, að George W. Bush, ríkisstjóri í Texas og sonur George Bush, fyrrverandi forseta, verði forsetaframbjóðandi þeirra og hann hefur gott forskot á Al Gore varaforseta og líklegan frambjóðanda demókrata. Hefur Bush stuðning 50% kjósenda nú en Gore 36%. Bill Bradley, öldungadeildarþingmaður demókrata í New Jersey, tilkynnti formlega í fyrradag, að hann hygðist leita eftir útnefningu flokksbræðra sinna sem forsetaframbjóðandi en í könnuninni fékk hann aðeins stuðning 17% demókrata en Gore 55%.

Ljóst þykir af könnuninni, að nokkurrar "Clinton-þreytu" gætir meðal Bandaríkjamanna og hætt er við, að Gore gjaldi þess. Þótt Bush njóti vinsælda þá var áberandi hvað kjósendur vissu lítið um hann og stefnumál hans og raunar rugluðu 13% þeirra honum saman við föður hans og héldu, að hann væri fyrrverandi forseti.