AÐSÓKN að nýjum sýningarsal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu hefur verið mjög góð allt frá því að hann var opnaður á Menningarnótt Reykjavíkur 21. ágúst sl., að sögn Þorgerðar Sigurðardóttur myndlistarmanns, sem á sæti í sýningarnefnd.
Íslensk grafík í Hafnarhúsinu Nýr sýningarsalur fer vel af stað

AÐSÓKN að nýjum sýningarsal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu hefur verið mjög góð allt frá því að hann var opnaður á Menningarnótt Reykjavíkur 21. ágúst sl., að sögn Þorgerðar Sigurðardóttur myndlistarmanns, sem á sæti í sýningarnefnd.

Hún kveðst afar ánægð með salinn, sem fyrst um sinn er opinn fjóra daga í viku, fimmtudaga til sunnudaga kl. 14­18. "Það er svo mikil umferð þarna, ekki síst um helgar þegar Kolaportið er opið. Og mér þykir skemmtilegt og jákvætt hvað það villist oft inn til okkar fólk sem annars tilheyrir ekki hópi fastagesta í galleríum. Við vonumst til þess að starfsemi sýningarsalarins auðgi lífið við höfnina og menninguna í miðbænum," segir Þorgerður.

Sýningu Braga lýkur á sunnudag

Nú stendur yfir í salnum sýning á grafíkverkum og teikningum Braga Ásgeirssonar, en hann er heiðursfélagi í Íslenskri grafík og var boðið að halda fyrstu sýninguna í nýja húsnæðinu. Sýningu Braga lýkur sunnudaginn 12. september og helgina þar á eftir hefst ljósmyndasýning. Að henni lokinni, eða í nóvember, er stefnt að því að hafa sýningu á verkum eftir Dieter Roth. Aðspurð um framhaldið segir Þorgerður að hugmyndin sé að halda um fimm sýningar á ári með verkum félaga, auk þess sem erlendum grafíklistamönnum verði öðru hverju boðið að sýna félagsmönnum og öðrum hvað efst er á baugi í greininni úti í hinum stóra heimi. Einnig hefur komið upp sú hugmynd að bjóða einum eða tveimur nýútskrifuðum nemendum á ári að sýna í salnum. Þá stendur til að Íslensk grafík taki þátt í grænlenskum menningardögum í mars næstkomandi.

Skúffugallerí í bígerð

Í Íslenskri grafík eru nú sjötíu félagsmenn en félögum hefur að sögn Þorgerðar fjölgað um helming á síðastliðnum sex árum. Eina hugmynd nefnir hún enn, sem nú er í gerjun: "Við höfum hug á að setja upp svokallað skúffugallerí, þar sem hver félagsmaður á sína skúffu. Þar getur fólk gengið að verkum félagsmanna óinnrömmuðum. Þetta er þekkt fyrirbæri í grafíkverkstæðum og sýningarsölum erlendis."