Verslanamiðstöðvar eru eflaust hagkvæmt verslunarform og sjálfsagt ágæt uppfinning út af fyrir sig. Þar er hlýtt og bjart og fjölmörg erindi má reka í einni og sömu ferðinni. Í nábýlinu felst jafnframt ótvírætt hagræði fyrir kaupmenn sem samnýta snyrtingar, auglýsingar, þrif, öryggisvörslu, bílastæði og fleira.
Alltaf bjart og hlýtt Það er samt eitthvað sem hræðir mig ­ eða réttara sagt; það er æði margt sem hræðir mig í þessum kastölum kaupmennskunnar.





Verslanamiðstöðvar eru eflaust hagkvæmt verslunarform og sjálfsagt ágæt uppfinning út af fyrir sig. Þar er hlýtt og bjart og fjölmörg erindi má reka í einni og sömu ferðinni. Í nábýlinu felst jafnframt ótvírætt hagræði fyrir kaupmenn sem samnýta snyrtingar, auglýsingar, þrif, öryggisvörslu, bílastæði og fleira. Ekki síst samnýta þeir viðskiptavinina, því vegfarandi sem einu sinni er kominn undir sameiginlegt þakið í leit að ákveðinni verslun rekst að líkindum inn í nokkrar fleiri áður en hann ratar út út húsinu hinum megin.

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti kringlum, snúðum, smárum og fjörðum, eða hvað þessar hallir kallast allar saman. Ég hef heimsótt þær flestar með óreglulegu millibili og meira að segja stundum komið út með bústna poka. En það er samt eitthvað sem hræðir mig ­ eða réttara sagt; það er æði margt sem hræðir mig í þessum kastölum kaupmennskunnar. Fyrst og fremst er ég hrædd um að eyða um efni fram, því freistingarnar skríkja í hverjum glugga, en það er fleira sem vekur ugg:

Ég er hrædd um að lenda í falinni myndavél eða sjónvarpsfólki sem spyr mig um eitthvað sem ég hef ekki skoðun eða hundsvit á ...

Ég er hrædd um að detta í rúllustiganum sem æðir sleitulaust ofan í gólfið og veldur stígandi svima ...

Ég er hrædd um að lenda í uppáþrengjandi sölumönnum á göngunum og kunna ekki að kjafta mig út úr aðstæðum ...

Ég er hrædd um að mæta einhverjum sem ég man ekki hvað heitir en á samt að þekkja og þurfa að gera mér upp kumpánleika og kurteisi ...

Ég er hrædd um að nafnið mitt verði kallað upp í hátalarakerfinu, að einhver þykist hafa týnt mér eða vilji eiga við mig orð ...

Ég er hrædd um að einhver fái aðsvif fyrir framan mig og ég finni mig knúna til þess að sinna honum án þess að kunna til verka ...

Ég er hrædd um að beygla óvart glansandi tímarit þegar ég reyni að falla í hóp heimsborgaranna sem fletta erlendum fagtímaritum í bókabúðum ...

Ég er hrædd um að slá veskinu í eitthvað brothætt í glervörubúð ...

Ég er hrædd um að festast í of þröngri peysu er ég reyni að tosa mig úr henni í hljóðbærum mátunarklefa. Verð að kalla á aðstoð með handleggina og peysuna í hnút um höfuðið ...

Ég er hrædd um að forvitið barn svipti tjaldinu frá mátunarklefanum þar sem ég stend fá- eða hálfklædd ...

Ég er hrædd um að rennilásinn bili á buxunum sem ég máta og verslunarstjórinn þvertaki fyrir að hann hafi þegar verið gallaður ...

Ég er hrædd um að posinn hafni greiðslukortinu mínu og afgreiðslukonan tilkynni það stundarhátt ­ alltof hátt ...

Ég er hrædd um að þjófavarnakerfið fari í gang um leið og ég geng út með pokann minn og viðstaddir horfi á mig hneykslaðir. Enginn horfir hins vegar á afgreiðslustúlkuna sem gleymdi að aftengja varninginn þegar ég greiddi hann ...

Ég er hrædd um að afgreiðslukonurnar skrái það hjá sér ef ég fer út án þess að kaupa. Næst hirði þær ekki um að bjóða mér aðstoð því ég tími hvort eð er aldrei neinu ...

Ég er hrædd um að valda úlfúð í röðinni í stórmarkaðnum ef ég hleyp frá kassanum til að ná í uppþvottalöginn sem ég gleymdi ...

Ég er hrædd um að innkaupapokinn minn leki og mér verði gert að skúra ...

Ég er hrædd um að ganga einhvern niður í öngþveitinu við útganginn ...

Ég er hrædd um að einhver hafi lagt svo nærri bílnum mínum að ég komist alls ekki inn. Ekki einu sinni farþegamegin ...

Ég er hrædd um að öryggisvörður komi hlaupandi á eftir mér og biðji mig að stíga inn fyrir aftur. Ég hafi nefnilega gleymt frændsystkinum mínum í barnahorninu ...

Jæja, þá það, ég játa að sum þessara óttakasta koma líka stundum yfir mig í frístandandi verslunum undir berum himni. Það þarf ekki verslanamiðstöðvar til. Og þó, það er eins og óöryggið margfaldist í réttu hlutfalli við verslanafjöldann. Á alla kanta eru gluggar og speglar sem magna upp þá tilfinningu að allir fylgist með öllum, gangarnir eru þrengri en svo að hægt sé að forðast annað fólk og það er einhver undarlegur glymur í húsinu, mismunandi tónlistin úr öllum áttum og sífelldur kliður. Við slíkar hringekjuaðstæður er auðvelt að tapa áttum, tapa einbeitingu (og tapa verðskyni ef því er að skipta). Ef manni verða á mistök í almennri torghegðun ­ þ.e. hefðbundinni hegðun á almannafæri ­ er þrautin þyngri að bregða sér út til að fá sér frískt loft. Ef verslanamiðstöðin er stór er líka auðvelt að villast.

Og svo er annað; á ferð um ranghala kaupmannakastalanna mætir maður aldrei neinum sem gengur rólega, kannski með hund í bandi eða garðhrífu undir handlegg og seilist eftir húslykli í vasa sinn. Þannig fólki er aftur á móti hægt að mæta á gangstéttum fyrir framan verslanir í eldri hlutum bæjarins því á efri hæðum búðanna eru íbúðir, bakvið verslanirnar eru garðar og yfir görðunum er alvöru himinn. Af þessum sökum er minni hætta á svimaköstum við verslunargötur en í verslanamiðstöðvum. Þangað eru nefnilega ekki endilega allir mættir í þeim erindagjörðum einum að kaupa, versla, eyða.

VIÐHORF eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur