NÝTING hótelherbergja í Reykjavík í ágústmánuði slær öll fyrri met að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Meðalnýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu var 93,06% á þessu tímabili, en til samanburðar má nefna að á sama tíma í fyrra var nýtingin 85,36% og er þetta hæsta herbergjanýting frá 1990, þegar reglulegar mælingar hófust.
Hótelin í Reykjavík slá fyrri met Meðalnýting herbergja um 93%

NÝTING hótelherbergja í Reykjavík í ágústmánuði slær öll fyrri met að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Meðalnýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu var 93,06% á þessu tímabili, en til samanburðar má nefna að á sama tíma í fyrra var nýtingin 85,36% og er þetta hæsta herbergjanýting frá 1990, þegar reglulegar mælingar hófust.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir skýringuna m.a. að finna í þeim fjölda ráðstefna og funda sem haldinn var í Reykjavík í ágústmánuði. Einnig sé þó um almenna fjölgun ferðamanna að ræða.

Útlit er fyrir góða nýtingu á hótelherbergjum í september- og októbermánuði, enda segir Erna oft töluvert um ráðstefnur og fundi á þessum tíma árs. En þessir viðburðir skipta, að hennar mati, höfuðmáli í núverandi þróun.

Herbergjanýting á landsbyggðinni dróst hins vegar saman yfir sumarmánuðina miðað við sama tíma í fyrra. Í ágústmánuði var nýting hótelherbergja t.d. 78,97% miðað við 83,11% í ágúst 1998. Erna segir töluverð frávik jafnan að finna þegar landsbyggðin sé skoðuð sem ein heild, því sums staðar hafi nýting aukist en annars staðar hafi hún minnkað. Nýtingin sé að vissu leyti svæðisbundin, en einnig hafi sums staðar bæst við gististaðir sem hafi áhrif á útreikninga.