KIWANISKLÚBBURINN Eldey í Kópavogi og BRÚ á Keflavíkurflugvelli hafa gefið Barnaspítala Hringsins fullkominn skjávarpa til notkunar við kennslu og leikjatölvur. Skjávarpinn INFOCUS að verðmæti 500.000 kr. var afhentur á Barnaspítala Hringsins 7. september sl.
Gjöf til Barnaspítala Hringsins

KIWANISKLÚBBURINN Eldey í Kópavogi og BRÚ á Keflavíkurflugvelli hafa gefið Barnaspítala Hringsins fullkominn skjávarpa til notkunar við kennslu og leikjatölvur. Skjávarpinn INFOCUS að verðmæti 500.000 kr. var afhentur á Barnaspítala Hringsins 7. september sl.

Kiwanisklúbbarnir söfnuðu fé til gjafarinnar sl. vetur. Uppistaða söfnunarinnar var forsýning kvikmyndarinnar Arlington Road í Háskólabíói en klúbbarnir fengu til ráðstöfunar allan ágóða sýningarinnar. Í kjölfarið ákváðu þeir að gefa Barnaspítala Hringsins sjávarpa.

Notkun varpans á Barnaspítalanum verður með ýmsum hætti. Tengja má skjávarpann við fjarkennslubúnað Barnaspítalans en börn sem dvelja langdvölum á spítalanum geta fylgt skólasystkinum sínum eftir í námi með því að nýta fjarkennslu og að sjálfsögðu má nota skjávarpann við kennslu barna á spítalanum sjálfum. Ennfremur verður skjávarpinn notaður við kennslu heilbrigðisstétta. Hægt verður að tengja skjávarpann við leikjatölvur fyrir rúmliggjandi börn þannig að þau geti notið tölvuleikja á sýningartjaldi eða vegg frekar en á tölvuskjá.

Andy Mackel afhenti Ásgeiri Haraldssyni, forstöðulækni Barnaspítalans, skjávarpann.