STJÓRNMÁLALEIÐTOGAR í Póllandi lýstu á miðvikudag áhyggjum yfir skorti á stuðningi pólsks almennings við aðild landsins að Evrópusambandinu (ESB), sem er efst á dagskrá pólskrar utanríkisstefnu. Vinstrimenn á þingi, arftakar kommúnista, sem eru í stjórnarandstöðu,
ESB-aðildarundirbúningur Póllands

Áhugaleysi almennings veldur áhyggjum

Varsjá. Reuters.

STJÓRNMÁLALEIÐTOGAR í Póllandi lýstu á miðvikudag áhyggjum yfir skorti á stuðningi pólsks almennings við aðild landsins að Evrópusambandinu (ESB), sem er efst á dagskrá pólskrar utanríkisstefnu.

Vinstrimenn á þingi, arftakar kommúnista, sem eru í stjórnarandstöðu, gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið sig í því að upplýsa almenning um kosti og vankanta á inngöngu í Evrópusambandið og fyrir að pukrast með samningsmarkmið Póllands í aðildarviðræðum.

Niðurstöður nýlegrar skoðanakönnunar benda til að almennur stuðningur við ESB-aðild hafi lækkað niður í 55%. Hann mældist 64% í fyrra og 70% fyrir þremur árum.

Tadeusz Mazowiecki, einn forystumanna Frelsisbandalagsins, eins stjórnarflokkanna, sagði brýnt að brugðizt yrði við. "Þetta er mikið verkefni fyrir öll stjórnmálaöfl landsins ­ að stöðva þessa þróun," sagði Mazowiecki í utandagskrárumræðu á þinginu í Varsjá. Hann tók fram, að pólska ríkissjónvarpið ætti að gera meira af því að sýna dagskrárefni sem tengdist Evrópusambandinu á góðum útsendingartíma.

Þegar samið hefur verið um hvenær Pólland gefst kostur á því að ganga í sambandið verður málið borið undir þjóðaratkvæði. Pólverjar hófu, ásamt fulltrúum fimm annarra ríkja, formlegar viðræður um ESB-aðild á síðasta ári, og vonast pólskir ráðamenn til að af inngöngunni geti orðið í ársbyrjun 2003. Fulltrúar stjórnsýslu ESB í Brussel hafa hins vegar sagt árið 2005 raunhæfara markmið.

Bændur ekki hrifnir

ESB-aðild nýtur æ minna fylgis einkum hjá hinni fjölmennu stétt pólskra bænda, sem óttast samkeppnina sem af aðildinni hlytist og kostnaðinn af því að aðlaga framleiðsluhætti að gæðastöðlum ESB. Forsætisráðherrann Jerzy Busek hefur reynt að fullvissa bændur um að þeir hafi ekkert að óttast þar sem þeir muni njóta góðs af ríkulegu landbúnaðarstyrkjakerfi ESB.