Tungumálakennsla innflytjenda, segir Guðrún Pétursdóttir, er eitt af frumskilyrðum þess að eðlileg samskipti milli innfæddra og nýbúa geti átt sér stað.
Er að myndast lægsta stétt á Íslandi?

Nýbúar Tungumálakennsla innflytjenda, segir Guðrún Pétursdóttir , er eitt af frumskilyrðum þess að eðlileg samskipti milli innfæddra og nýbúa geti átt sér stað.

SKÓLINN spilar lykilhlutverk við útdeilingu möguleika í lífinu. Sá sem yfirgefur skóla án þess að ljúka prófi hefur minni möguleika á vinnumarkaðnum og líkurnar á lágum launum aukast. Bágur fjárhagur hefur hins vegar neikvæð áhrif á öll önnur lífssvið svo sem húsnæði, heilsu, tómstundir og félagslega virkni. Jafnir möguleikar á að ljúka námi með góðum árangri er því grundvallaratriði fyrir lýðræðislegt jafnrétti. Aðeins úr jafnréttháum nemendum verða jafnréttháir þjóðfélagsþegnar. En hafa allir íbúar lands okkar jafna möguleika til þess að nýta sér þau réttindi og tækifæri sem eru fyrir hendi? Réttur allra getur verið sá sami samkvæmt lögum, en möguleikarnir til þess að nýta sér hann ójafnir. Þar eru möguleikar til menntunar og sérhæfingar mikilvægastir. Menntunin er meginþáttur jafnra möguleika og tækifæra. Eitt af því sem nauðsynlegt er til þess að geta nýtt sér þá menntunarmöguleika sem í boði eru er að geta talað og skilið það tungumál sem kennt er á.

Flest ríki Evrópu má nú þegar skilgreina sem "fjölmenningarleg samfélög". Hugtakið fjölmenning felur í sér að í viðkomandi löndum býr saman fólk með mismunandi menningarlegan og "etnískan" uppruna. Þróunin í heiminum hefur verið í stöðugri átt til aukinnar fjölmenningar og mun sú þróun aukast enn frekar á næstu árum. Við þurfum því í rauninni ekki að spyrja okkur hvort við viljum að Ísland verði fjölmenningarlegt land, heldur hvernig við getum búið svo í haginn að hér ríki jafnrétti og sátt milli hinna mismunandi menningarhópa. Hvernig við getum kennt bæði íslenskum og aðfluttum börnum að virða og meta menningu hvert annars og nýta sér mismuninn til góðs en ekki til mismununar.

Tungumálakennsla innflytjenda er eitt af frumskilyrðum þess að eðlileg samskipti milli innfæddra og nýbúa geti átt sér stað. Sá hópur sem ef til vill líður mest undir vanrækslu á sviði tungumálakennslu eru börnin sem í versta falli fá hvorki fullnægjandi (eða enga) móðurmálskennslu né fullnægjandi kennslu í hinu nýja tungumáli. Þannig geta þau ekki með nokkru móti haldið uppi sama námshraða og jafnaldrar þeirra í skóla sem læra námsefnið á sínu móðurmáli. Afleiðingin getur orðið einskonar "lágstétt" ómenntaðra innflytjenda andspænis betur menntuðum og fjárhagslega betur stæðum Íslendingum. Í Þýskalandi vöknuðu menn t.d. upp við vondan draum þegar allir sérskólar og sérdeildir landsins voru að fyllast af börnum innflytjenda. Ekkert vantaði upp á greind þessara barna en þau höfðu ekki nægjanlega þýskukunnáttu til að uppfylla þær námskröfur sem gerðar voru til þeirra. Hér á Íslandi sjáum við því miður sömu þróun þar sem brottfall unglinga með annað móðurmál en íslensku úr framhaldsskólum er tæplega 100%. Þ.e. þeir örfáu nemendur sem fara í framhaldsnám eftir grunnskóla hætta nær allir. Af þessu er augljóst að góð kennsla í því tungumáli sem kennt er á er einn mikilvægasti grunnurinn til að byggja á varðandi jafna möguleika til menntunar. Þó hefur í nágrannalöndum okkar einnig verið rík áhersla lögð á móðurmálskennslu þar sem greinilega hefur verið sýnt fram á hægari þroska og aukna námsörðugleika barna sem týnt hafa niður eða njóta lítils stuðnings við að viðhalda móðurmáli sínu.

Svíþjóð var það Evrópuland sem fyrst hóf reglulega og lögbundna móðurmálskennslu í grunnskólum árið 1985 og hefur þar hvert einasta barn, hvert sem móðurmál þess er, rétt á móðurmálskennslu. Þannig byrjar kennsla hvers innflytjendabarns í námsefninu á þess eigin móðurmáli, jafnhliða kennslu í tungumáli þess lands sem það býr í. Smám saman er sá hluti námsefnisins aukinn sem fram fer á þessu nýja tungumáli, uns það er fært um að vinna allt námsefnið á því tungumáli, án þess þó að hafa misst úr stóran hluta námsefnisins vegna tungumálaörðugleika. Móðurmálskennslan er þó enn mikilvæg þegar hið nýja mál er orðið barninu mjög tamt, en móðurmál þess er ennþá talað á heimilinu. Oft fer með tímanum svo, ef ekkert er að gert, að barnið getur í rauninni ekki talað neitt tungumál fullkomlega, þ.e. hvorki tungumál þess lands sem það býr í, né heldur við foreldra sína á þeirra móðurmáli, og getur það valdið mikilli andlegri vanlíðan að geta ekki gert sig fullkomlega skiljanlegan á neinu tungumáli.

Fjölmenningarleg kennsla felur í sér undirbúning allra barna undir líf í breyttu þjóðfélagi, með breyttum leikreglum. Íslensk börn þurfa að læra að viðurkenna afstæði eigin menningar í samanburði við aðra menningu. Þau þurfa að læra að skilja gagnkvæm not mismunandi menningar hverrar af annarri, að standa við hlið minnihlutans í þjóðfélaginu og standa vörð um jafnan rétt hans. Aðfluttu börnin þurfa að læra ákveðna aðlögun sem gerir þeim kleift að lifa í flóknu, tæknivæddu iðnaðar- og þjónustusamfélagi, sem einkennist af hagsmunabaráttu. Öll þurfa börnin svo að læra að setja sig í spor annarra og sýna umburðarlyndi og skilning gagnvart þeim sem líta öðruvísi út en þau, hafa aðra siði og venjur eða iðka önnur trúarbrögð. Þessi síðustu atriði eiga vissulega ekki aðeins við um börnin, heldur þurfum við öll að læra að virða hvert annars menningu og auka með því víðsýni okkar og hæfileika til að lifa í fjölmenningarlegum heimi.

Höfundur er félagsfræðingur og starfar hjá Upplýsinga- og menningarmiðstöð nýbúa.

Guðrún Pétursdóttir