HÉR á Íslandi ríkir lýðræði og finnst jú flestum gott mál. Það er lýðræðislega kosin ríkistjórn, sem í krafti meirihluta tekur ákvarðanir, Í Reykjavík er lýðræðislega kosin borgarstjórn sem tekur ákvarðanir í krafti meirihluta og svona er þetta yfirleitt þar sem margir eigendur eru og taka þarf ákvarðanir.

Hundahald

Frá Sigurði Jónssyni:

HÉR á Íslandi ríkir lýðræði og finnst jú flestum gott mál. Það er lýðræðislega kosin ríkistjórn, sem í krafti meirihluta tekur ákvarðanir, Í Reykjavík er lýðræðislega kosin borgarstjórn sem tekur ákvarðanir í krafti meirihluta og svona er þetta yfirleitt þar sem margir eigendur eru og taka þarf ákvarðanir. Svona er þetta líka í húsfélögum, þar ræður meirihluti öllu milli himins og jarðar, framkvæmdum, umgengni osfrv. En í allavegana einu máli er ekkert til sem heitir lýðræði í húsinu. Það er í sambandi við hundaeign. Í húsfélaginu getur 1 manneskja ráðið öllu um hvort hundar eru í húsinu eða ekki og skiptir þá engu hversu margir vilja hafa hund, þessi eina manneskja ræður, það þarf ekkert að ræða eitt né neitt. Þessi eini íbúi fær alræðisvald gagnvart öðrum íbúum hússins og skiptir þá engu hvaða manneskju sá íbúi hefur að geyma. Íbúinn getur haft ýmis rök til þess, það getur verið læknisfræðilegt, vegna hreinlætis eða hávaða, eða vegna alls óskyldra mála svo sem hvernig til hefur tekist með ákvarðanir um hússjóð eða framkvæmdir og þessi íbúi orðið undir í atkvæðagreiðslu og þarf að hefna sín, eða, hreinlega af illsku út í lífið og tilveruna.

Svona er einmitt ástandið í Sílakvísl 15­27 í dag. Þar eru allir sáttir við hundahald nema einn. Þessi eini hafði ekki sitt fram á húsfundi og til að ná sér niðri á hinum varð að ráðast á saklaus dýrin. (Hundar voru fyrir í húsinu þegar þessi íbúi flutti inn og var þá ekkert sagt.) Í þessu húsi eru sjö íbúðir og allar með sérinngang, fjórar með sameiginlegar útitröppur, (15 tröppur!). Ekki er það hávaðinn eða sóðaskapurinn sem um er kvartað, né heldur heilsan, enda þessi íbúi látið vel að hundunum og börnin leikið sér við þá hér áður fyrr á meðan allt lék í lyndi. Einnig var eigendum tveggja þessara hunda hrósað sérstaklega fyrir þrifalega umgengni enda eigendur alltaf með fulla vasa af pokum frá Plastos til að þrífa upp. Nú, hinir hundarnir tveir eru teymdir út í bíl eina fjóra til fimm metra og keyrðir burt til að hreyfa þá annars staðar og síðan sömu leið til baka svo ekki er yfir neinu að kvarta þar. En allt kemur fyrir ekki, blóðöxin er munduð yfir þessum hundum núna, enginn getur eða vill breyta, Borgaryfirvöld humma fram af sér málið og tala um lög og reglugerðir og talað er um að hvert einstakt mál sé sérstaklega skoðað áður en endanleg ákvörðun er tekin en grunur leikur á að málin séu færð úr "óafgreitt" bakkanum í "afgreitt" án þess að nokkur lesi um málið. Fólki er leyft ýmislegt hér á landi svo sem að tortíma sér með áfengi eða öðru verra, spila sig og fjölskylduna út á kaldan klakann í fjárhættuspilakössum, aka bíl bæði til góðs og ills osfrv. og verður hver og einn að taka afleiðingum gerða sinna, sumir standa sig vel og aðrir illa. Um þetta eru til allskyns reglur og sé farið eftir þeim gengur flest vel, en stóra málið er að fólk hefur val. Svo er ekki í hundamálum, þar er allt bannað - bannað - bannað! Og svo koma einhverjar undanþágur og þá helst til þeirra sem eiga nóg fjármagn til að kaupa einbýlishús en hina er ekki hlustað á. Það er til fjöldinn allur af fólki sem óskar eftir að eiga hund og hefur bæði vilja og getu til að gera það þannig að ekki spilli fyrir nágrönnum, þeim ætti hiklaust að leyfa það. Þeim sem ekki geta haldið hund á sómasamlegan hátt yrði refsað, sama og með ökulagabrot eða ölvunarbrot osfrv. En ekki að refsa öllum, líka þeim sem kunna að fara eftir almennum umgengnisreglum.

Þetta mál þekki ég persónulega, enda kem ég oft í Sílakvíslina.

SIGURÐUR JÓNSSON,

Álfheimum 46, Reykjavík.