SVO virðist sem verulega hafi dregið úr spillingu í Nígeríu á fyrstu 100 dögum borgaralegrar stjórnar í landinu. Verður þess vart með ýmsum hætti en sýnir sig kannski best í því, að bensín er nú aftur fáanlegt fyrir almenna borgara í þessu mikla olíuframleiðsluríki.

Dregur verulega úr

spillingu í Nígeríu

Lagos. Daily Telegraph.

SVO virðist sem verulega hafi dregið úr spillingu í Nígeríu á fyrstu 100 dögum borgaralegrar stjórnar í landinu. Verður þess vart með ýmsum hætti en sýnir sig kannski best í því, að bensín er nú aftur fáanlegt fyrir almenna borgara í þessu mikla olíuframleiðsluríki.

Um margra ára skeið hafa bensínstöðvar í Nígeríu minnt mest á umferðarmiðstöðvar þar sem fólk hefur mátt bíða jafnvel dögum saman eftir bensíndropanum en nú gengur afgreiðslan greiðlega og eðlilega fyrir sig. Var þetta ástand gott dæmi um hve Nígería, sem framleiðir um tvær milljónir olíufata á dag, var djúpt sokkin í spillingarfenið undir stjórn herforingjanna.

Engin töfrabrögð

Atiku Abubakar, varaforseti Nígeríu, segir, að stjórnin hafi ekki beitt neinum töfrabrögðum við að ráða bót á bensínleysinu. "Við upprættum bara spillinguna í bensíndreifingunni," sagði hann.

Er Olusegun Obasanjo sór embættiseið sem forseti landsins lofaði hann því, að í stríðinu við spillingaröflin yrði engum hlíft. Almenningur, sem er ekki óvanur yfirlýsingum af því tagi, var heldur vantrúaður en fáum dögum síðar voru ógiltir allir samningar, sem herstjórnin hafði gert síðasta hálfa árið, og rannsókn fyrirskipuð. Samningar herforingjanna hafa lengi verið notaðir til að auðvelda þeim og öðrum stórfelldan þjófnað á almannafé. Samkvæmt fréttum frá Lagos, höfuðborginni, er ríkisstjórnin nú að reyna að endurheimta milljarða króna, sem herforingjarnir stálu og komu fyrir í bönkum í London.

Ofbeldi og úfar með þjóðarbrotunum

Það verður hvorki létt verk né löðurmannlegt að kveða niður spillinguna í Nígeríu og það bætir ekki úr skák fyrir nýju stjórninni, að ofbeldi og glæpir hafa aukist að undanförnu. Kemur það helst fram í vaxandi átökum milli þjóðarbrotanna í landinu. Er stjórnin eins og á milli steins og sleggju í þessu efni því að hún lét það verða sitt fyrsta verk að kalla hina illa þokkuðu hermenn heim af götunum. Lögreglan, fámenn og illa þjálfuð, fær hins vegar við lítið ráðið.

Annað mál, sem erfiðleikum veldur, er hvort sækja eigi herforingjana til saka fyrir mannréttindabrot og aðra glæpi. Þeir eru margir mjög auðugir og valdamiklir og ekki er víst, að lýðræðið í Nígeríu lifði af mjög nána skoðun á fortíðinni.