ÍSAFJARÐARFLUGVÖLLUR hefur verið opnaður á nýjan leik, en lokið var við að setja nýja klæðningu á hann sl. þriðjudag. Flugvöllurinn var lokaður fyrir allri flugumferð dagana 29. ágúst til 7. september, en þann tíma var flugumferð beint á Þingeyrarflugvöll.
Ísafjörður Viðgerð er lokið á flugvellinum

ÍSAFJARÐARFLUGVÖLLUR hefur verið opnaður á nýjan leik, en lokið var við að setja nýja klæðningu á hann sl. þriðjudag.

Flugvöllurinn var lokaður fyrir allri flugumferð dagana 29. ágúst til 7. september, en þann tíma var flugumferð beint á Þingeyrarflugvöll.

Nokkrar tafir urðu á framkvæmdunum vegna veðurs, en að því er Guðbjörn Charlesson, flugvallarstjóri Ísafjarðarflugvallar, segir má búast við slíkum töfum á þessum tíma árs. "Framkvæmdirnar eru á þeim árstíma að það má alltaf búast við rigningu, jafnvel í viku eða hálfan mánuð. Dragist framkvæmdir mikið fram yfir miðjan ágúst má einfaldlega búast við þessu," segir Guðbjörn.

Það var á vormánuðum að í ljós kom að ekki var unnt að bíða með að setja nýja klæðningu á flugbrautina til næsta árs líkt og gert hafði verið ráð fyrir. Guðbjörn segir skjótt hafa verið brugðist við, en slík skipulagsvinna taki engu að síður sinn tíma og því hafi reynst nauðsynlegt að vinna verkið á þessum tíma.

Miklar rigningar töfðu verkið

Hann segir alltaf hafa legið ljóst fyrir að þótt sagt væri að ljúka mætti verkinu á þremur dögum við bestu aðstæður þyrfti ekki mikið út af að bera til að svo yrði ekki. Miklar rigningar hafi haft úrslitaáhrif á á það hve framkvæmdin hefði tafist.

Áætlaður kostnaður við klæðningu flugvallarins er 28 milljónir króna. Lokauppgjör hefur hins vegar ekki enn farið fram og segir Guðjón að við röskun eins og þessa geti alltaf eitthvað bæst við, þótt væntanlega sé ekki um háar upphæðir að ræða.

Klæðning flugbrautarinnar breikkaði úr 30 metrum í 42,5 metra við framkvæmdirnar, sem gerir brautina mun rýmri fyrir flugvélar að snúa við og athafna sig á. Auk þess verður brautin auðveldari í snjóhreinsun að vetri.



Halldór Sveinbjörnsson Ný klæðning er nú komin á Ísafjarðarflugvöll, sem breikkar töluvert fyrir vikið.