ÍSLENSKA 2000-nefndin fylgdist með því í gær hvort upp kæmu truflanir í hugbúnaðarkerfum í stærstu sveitarfélögunum og ýmsum stofnunum. Sá möguleiki var fyrir hendi að einhver hugbúnaðarkerfi læsi dagsetninguna 9. sept. 1999 sem "9999" en í eldri hugbúnaðarkerfum táknaði sú skipun að tölvan ætti að hætta tilteknu verkefni.
Fylgst með truflunum vegna dagsetningarinnar 9.9. 99

Hafði ekki teljandi

áhrif á tölvurnar

ÍSLENSKA 2000-nefndin fylgdist með því í gær hvort upp kæmu truflanir í hugbúnaðarkerfum í stærstu sveitarfélögunum og ýmsum stofnunum. Sá möguleiki var fyrir hendi að einhver hugbúnaðarkerfi læsi dagsetninguna 9. sept. 1999 sem "9999" en í eldri hugbúnaðarkerfum táknaði sú skipun að tölvan ætti að hætta tilteknu verkefni. Haukur Ingibergsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, formaður 2000-nefndarinnar og stjórnarmaður Upplýsingamiðstöðvar SÞ um 2000-vandamál, sagði að ekki hefði komið upp teljandi vandi vegna dagsetningarinnar enda væri tölvukostur landsmanna frekar nýlegur, en hætt var við að truflanir kæmu einkum upp í eldri gerð hugbúnaðarkerfa.

Haukur sagði að erlendis frá hefðu borist fregnir um að litlar truflanir hefðu orðið á hugbúnaði vegna dagsetningarinnar og því hefði þessi vandi e.t.v. verið ofmetinn að einhverju marki.

Fylgst var með því hvort upp kæmu truflanir í fjármála-, fjarskipta-, samgöngu-, heilbrigðis- og orkukerfum. Umsjónarmönnum með 2000-vandanum í öllum stærstu sveitarfélögunum var gert viðvart og skyldu þeir tilkynna 2000-nefndinni ef upp kæmu vandamál.

Þarf að vakta hegðun almennings

Haukur sagði aðspurður að því hvort draga mætti einhvern lærdóm af framvindu gærdagsins með tilliti til 2000-vandans, að svo væri ekki, en þó mætti benda á eitt atriði viðvíkjandi mannlegri háttsemi við slíkar aðstæður.

"Við vitum að japanski seðlabankinn lenti í vandræðum í gær [fyrradag] vegna þess að japönsku viðskiptabankarnir tóku út svo mikið af lausafé einmitt til þess að geta brugðist við ef það yrði ótti hjá almenningi út af einhverjum truflunum í kerfum og almenningur færi að taka út fé, sem virðist ekki hafa orðið raunin á," sagði Haukur. Hann sagði að hluti af ótta manna vegna 2000-vandans væri sá að almenningur sýndi ástæðulausa hegðun, byggða á sögusögnum við svona aðstæður, t.d. þá að hamstra matvæli, lyf og annað. Einn liður í því að takast á við 2000-vandann væri því að vakta hegðun almennings.