Hver er orsök þess ofurkapps sem heimtar, spyr Karólína Þorsteinsdóttir, að allar virkjanir skuli reistar á mestu eldgosa- og jarðskjálftasvæðum landsins?
Auðurinn fór suður

Stóriðja Hver er orsök þess ofurkapps sem heimtar, spyr Karólína Þorsteinsdóttir , að allar virkjanir skuli reistar á mestu eldgosa- og jarðskjálftasvæðum landsins?

LOKSINS ­ loksins, hópur fólks sem vinnur að því að bjarga Austurlandi: Tilefnið er ekki lítið eða hvað? ­ Það á að fara að virkja. Eyjabakkasvæði, sem fæstir hafa heyrt nefnt verður að lóni. Blessaðar gæsirnar sem skotveiðimenn bíða eftir, færa sig þá að öllum líkindum um set og hreindýrin sem fara í flokkum um landið og valda miklum gróðurskemmdum, finna ný svæði.

Þessi hópur er fullur vandlætingar og minnir á Greenpeace ­ sem berjast fyrir frelsun hvalastofnsins og vilja banna vinnslu úr dýraskinnum o.s.frv. Þeir hafa fengið aðstoð frá Englandi þar sem Sellafield er með kjarnorkuúrganginn sem ógnar öllu lífi í norðurhöfum og frá Norðmönnum, og virðist þá Smugudeilan gleymd.

Bjargvættir okkar gæta þess að fréttamenn séu á svæðinu þegar fulltrúar hópsins loka leiðinni inn á hálendið. Þar standa þeir eins og hryðjuverkamenn, keyra bíla inn á brú og loka henni síðan með vírum. Þeir taka á móti virkjunarmönnum, færa þeim mótmæli fyrir gæsirnar og boða aukna hörku, ef ekki verður farið að kröfum þeirra.

En hafið þið tekið eftir því að þessi hópur er ekki í neinni hættu með sína atvinnu, þar er hver einstaklingur í gulltryggðri stöðu hjá ríkinu, eða á góðum eftirlaunum, ­ nema að hvorttveggja sé. Ég man ekki eftir að svo stór hópur hafi sameinast gegn Þjórsárvirkjun sem sér stærstu stóriðjuverum hér fyrir rafmagni. En nú rís upp fjöldi fólks, ungs og gamals, sem aldrei hefur komið á Eyjabakkana fyrr... Fólk sem skilur gæsir betur en fólk. Fólk sem þarf aldrei að berjast fyrir atvinnu sinni ­ eða horfa á eignir sínar verða verðlausar vegna atvinnuþróunar í landinu. Og síðast en ekki síst fólk sem þekkir miklu betur til erlendra stórborga en síns eigin lands.

Seyðisfjörður heitir staður á Austurlandi og ekki er víst að allir okkar bjargvættir viti það. Á botni hans liggur sokkið olíuflutningaskip frá því á stríðsárunum og úr því flæðir svartolía sem drepur fugla hér úti um allan fjörð, sem enginn virðist taka sér nærri nema við þessi fáu sem búum hér. Lítillega hefur verið fjallað um þennan atburð í fjölmiðlum þessa dagana og þar hefur málið heitið "El Grilló- málið". Það minnir okkur á hvernig stríðsárin fóru með Seyðisfjörð sem enn þann dag í dag berst við stórfellda olíumengun frá þessu skipi. Þegar herinn fór var þjóðin verðlaunuð með Marshall-hjálp, sem fór ekki til að hreinsa olíuna úr firðinum okkar, og ekki fór hún til að virkja á Austurlandi. Írafoss og Ljósafoss urðu fyrir valinu. Það þurfti stóriðju til þess að koma landinu úr öskustó, og meiri stóriðju og það þurfti mink og ref og fiskeldi. Allt þetta kom á Reykjavíkursvæðið og Suðurlandið, en enginn mundi eftir fuglum. Svo kom síldin að Austurlandinu, þaðan var hún veidd, þar var hún söltuð og þar var hún brædd. Síldarauðurinn rann nánast allur til Reykjavíkur í enn stærri virkjanir og meiri stóriðju, í peningahallir og stóríbúðarhverfi, að ógleymdum hringveginum kringum landið svo fólkið fyrir austan, vestan og norðan yrði fljótara að koma sér þangað sem allt þetta var. Nú er verið að byggja þar verslunarhallir sem aldrei fyrr og hvert er kvótinn farinn? Já, auðurinn fór suður en síldarplássin sátu eftir með lélegar bryggjur sem hafa grotnað niður til lítillar prýði. Ég er enginn sérstakur aðdáandi stóriðjuvera eða stórvirkjana sem slíkra, og þekki varla nokkurn sem er það.

Þess vegna spyr ég: "Hver er þá orsök þess ofurkapps sem heimtar að allar virkjanir skuli reistar á mestu eldgosa- og jarðskjálftasvæðum landsins og að allar mengunarverksmiðjur skuli staðsettar þar sem flest fólkið býr?"

Nú er Katla í gjörgæslu vísindamanna, hefði þess verið nokkur kostur að galdra svo sem eins og eina Búrfellsvirkjun austur á Eyjabakka til öryggis suðvesturhorninu núna í hvelli til að bjarga málum þess ­ ef Katla skyldi nú gjósa ­ þá hefði öllu verið kostað til þeirrar framkvæmdar og enginn hefði orðað gæs eða hreindýr. Síst borgarstjórinn í Reykjavík.

Illugi Jökulsson er nú vanur að skjóta föstum skotum. Það var fallega gert af honum að muna eftir frændum sínum fyrir austan í Eyjabakkamálinu. En hefur hann komið á Eyjabakkana? Hefði hann ekki gott af að heimsækja sitt fólk og reyna að skilja baráttu þess, og áhuga fyrir því að snúa lífsbaráttu frá vonleysi í vörn til bjartsýni og sóknar við inngöngu til nýrrar aldar. Illugi myndi líka finna hér gott og skilningsríkt fólk, sem segir um hann sín á milli þegar hann sendir því tóninn eins og hann gerði síðastliðinn fimmtudag. "Hann er nú ágætur, hann Illugi, þetta er bara hans atvinna að tala svona um fólk. Hann fær borgað fyrir það." Austfirðingar vita nefnilega að menn komast ekki af nema að hafa eitthvað fyrir stafni og fá borgað fyrir það, líka Illugi.

Ég er ekki Austfirðingur og á ekki ættir að rekja hingað. Er sennilega ekkert skyld Illuga, en grun hefi ég um að ég þekki land og fólk hér betur en hann.

Ég bý á Seyðisfirði og málefni hans eru mér ofarlega í huga. Forverar okkar í þessum firði hafa í upphafi þessarar aldar verið kraftmikið og áræðið fólk. Gamli bæjarkjarninn sem speglar sig á góðviðrisdögum í logninu í firðinum sendir þegar minnst varir tón Inga T. og Jónasar inn í vitundina ­ "Ég bið að heilsa!"

Ég bið líka að heilsa til framtíðar, með ósk um að þeir sem taka við þessum bæ hver fram af öðrum megi bera gæfu til að vernda það besta sem þeir taka við ásamt því að skapa góðan bæ og gott mannlíf í arf til kynslóðanna.

Höfundur er húsmóðir á Seyðisfirði.

Karólína Þorsteinsdóttir