SKAMMT frá kumli í mynni Laxárdals við Hólm í Nesjum, við Hornafjörð, hefur fundist blótsstaður. Meðal muna sem komið hafa í ljós eru fjalhögg en það er kubbur úr hryggjarlið hvals til að brytja niður kjöt á, snældusnúða, kljásteinar, perlur, brýni, sverðslípisteinn, brennd- og óbrennd bein og viðarkol. Mun þetta vera fyrsti rannsakaði blótstaðurinn í norrænum menningarheimi að sögn Bjarna F.
Merkar fornleifar fundnar við uppgröft við Hólm í Nesjum í Hornafirði

Fyrsti blótstaður sem finnst

á þessu menningarsvæði

SKAMMT frá kumli í mynni Laxárdals við Hólm í Nesjum, við Hornafjörð, hefur fundist blótsstaður. Meðal muna sem komið hafa í ljós eru fjalhögg en það er kubbur úr hryggjarlið hvals til að brytja niður kjöt á, snældusnúða, kljásteinar, perlur, brýni, sverðslípisteinn, brennd- og óbrennd bein og viðarkol. Mun þetta vera fyrsti rannsakaði blótstaðurinn í norrænum menningarheimi að sögn Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings, sem staðið hefur fyrir uppgreftrinum við kumlið. Hefur hann meðal annars komið niður á fornt bæjarstæði frá því löngu fyrir árið 1000.

Bjarni hefur undanfarna daga verið að rannsaka umrætt svæði. Við uppgröft árið 1996 kom Bjarni niður á bæjarstæðið, sem talið er vera landnámsbýli frá því löngu fyrir árið 1000 en býlið stóð skammt frá kumlinu, sem þekkt hefur verið í um hundrað ár. "Býlið var ekki þekkt fyrr en árið 1996 og ekkert annað en þetta eina kuml," sagði hann. Eftir að býlið kom í ljós fékk Bjarni fjárveitingu til að kanna svæðið frekar og gróf hann í bæjarstæðið og kumlið ári síðar en síðast var grafið í kumlið árið 1902. "Ég hélt síðan áfram að grafa í kring um kumlið því það var greinilegt að hólinn sem hér er geymdi eitthvað meira en þetta eina kuml," sagði Bjarni. "Í sumar hef ég einbeitt mér að stað sem ég kalla blótstað rétt við kumlið, sem ég rannsakaði árið 1997 en þá náði ég bara að taka litla holu og gerði mér þá ekki grein fyrir því hvernig þetta mannvirki. Þó þorði ég að varpa fram þeirri tilgátu að þarna væri blótsstaður."

Grunur staðfestur

Í sumar fékk Bjarni styrk frá menntamálaráðuneytinu, Hornafjarðarbæ og Sýslusafninu til að rannsaka svæðið á ný. "Ég er að staðfesta þennan grun minn um að þetta er sannarlega blótsstaður og hugsanlega eitthvað meira en það kemur í ljós á næstu dögum," sagði hann. "Það er enginn rannsakaður blótsstaður til í norrænum mennigarheimi hingað til frá víkingaöld. Hins vegar eru til blótstaðir eða hof frá steinöld, bronsöld og eldri járnöld."

Bjarni sagði að nálægðin við kumlið benti til þess að um blótstað væri að ræða. "Blótstaðurinn er um fjóra metra frá kumlinu og þar hafa menn matast, eldað mat, látið elda loga og hugsanlega komið aftur og aftur á staðinn og stungið niður pinnum væntanlega til að færa hinum látna sem hér hvílir, sjálfum forföðurnum getur maður ímyndað sér, fórnir því hann er áfram hluti af fjölskyldunni þó hann sé farinn," sagði hann.

Morgunblaðið/Bjarni F. Einarsson

Daníel Lindblad og Björn G. Arnarsson við uppgröft á blótstað í mynni Laxárdals við Hornafjörð.