EIGENDUR Nor.Web Ltd., sem eru breska raforkufyrirtækið United Utilities og kanadíska fjarskiptafyrirtækið Nortel Networks, hafa ákveðið að draga sig út úr gagnaflutningum um rafdreifikerfi og loka fyrirtæki sínu með 50 starfsmönnum í Manchester á Englandi í lok mánaðarins. Nor.Web hefur átt í samstarfi við Línu.
Samstarfsaðili Reykjavíkur um gagnaflutninga um raforkukerfið leggur upp laupana

Stóðst ekki samkeppni við breiðband

Ákveðið hefur verið að loka fyrirtækinu Nor.Web, sem gert hefur samning við dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar um gagnaflutninga um raforkukerfið. Pétur Gunnarsson kynnti sér erlenda umfjöllun um málið og ræddi við talsmenn fylkinganna í borgarstjórn.

EIGENDUR Nor.Web Ltd., sem eru breska raforkufyrirtækið United Utilities og kanadíska fjarskiptafyrirtækið Nortel Networks, hafa ákveðið að draga sig út úr gagnaflutningum um rafdreifikerfi og loka fyrirtæki sínu með 50 starfsmönnum í Manchester á Englandi í lok mánaðarins. Nor.Web hefur átt í samstarfi við Línu.Net, dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar um tilraunir við notkun raforkukerfis til gagnaflutninga í Reykjavík. Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir að því miður sé það komið á daginn sem sjálfstæðismenn hafi varað við þegar rætt var um stofnun Línu.Nets í borgarstjórn. Mörg atriði málsins, tæknileg og fjárhagsleg, hafi verið byggð á hæpnum forsendum.

Nor.Web var að vinna við þróun á tækni sem gerði raforkuveitum kleift að flytja gögn um raforkukerfið. Fyrirtækið ætlaði að bjóða háhraðaflutninga og var rætt um flutningsgetuna eitt megabæt á sekúndu um raforkulínur heimila.

Ekki samkeppnishæft við breiðband

Í frétt vefritsins TechWeb um þá ákvörðun eigenda Nor.Web að hætta þróunarstarfi og loka fyrirtækinu í Manchester segir að móðurfyrirtækin hafi gefið erfiðar markaðsaðstæður upp sem ástæðu fyrir ákvörðun sinni. "Ákvörðunin var viðskiptalegs eðlis, ekki tæknileg, tæknin kom vel út við prófanir," er haft eftir talsmanni United Utilities í vefritinu. "Ákvörðunin var tekin í ljósi samkeppnisstöðu gagnvart breiðbandsaðgangi. Við leitum hugsanlegra fjárfesta en höfum ekki í hyggju að vinna frekar að þessari tækni eins og stendur."

"Fjöldi áskrifenda var ekki nægur samanborið við breiðbandið," hefur TechWeb eftir Kate Thomson, markaðsstjóra Nor.Web. Hún segir að móðurfyrirtækin tvö muni áfram varðveita einkaleyfi sitt á uppfinningunni. "Það er hugsanlegt að við tökum afstöðu til tilboða í einkaleyfið frá orkuveitum og öðrum viðskiptavinum," segir Thomson.

Í vefritinu Total Telecom er einnig fjallað um málið og haft eftir ónafngreindum talsmanni Nor.Web að fyrirtækið hafi talið að viðskiptavinafjöldi yrði takmarkaður og of lítill til þess að reksturinn gæti orðið hagkvæmur. "Áhugi á tækninni skilaði sér ekki í sölu," segir talsmaðurinn.

TechWeb ræðir ennfremur um málið við Peter Aknai, ráðgjafa hjá fjarskiptaráðgjafarfyrirtækinu Analysys, sem segir að fyrir nokkrum mánuðum hafi tímarit IEE, Institute of Electrical Engineers, birt grein um þessa tækni þar sem lýst var áhyggjum af því að straumleki úr leiðslum myndi valda truflun á fjarskiptum um rafleiðslur. "Ef slík vandamál eru til staðar mundi það valda kerfinu auknum kostnaði. Breiðbandið þarf ekki að takast á við slík vandamál," segir Aknai. Hann segir að tækifærið til að þróa þessa tækni kunni einfaldlega að hafa gengið mönnum úr greipum þar sem minni tími gafst til að þróa þessa nýjung en aðra breiðbandstækni.

Kom sérfræðingum ekki á óvart

Í vefritinu Total Telecom segir að sérfræðingum komi fréttir þessar ekki á óvart; sumir hafi spáð því um skeið að þessi tækni yrði að engu. Ákvörðunin um að hætta þróunarstarfi Nor.Web skilji viðskiptavini fyrirtækisins eftir á berangri en þeir hafi verið komnir að endalokum prófana og hafi verið nánast tilbúnir í rekstur kerfisins. "Þetta var tálsýn, tímaeyðsla, sem ekki var þess virði að standa í," er haft eftir sérfræðingnum Tim Johnson hjá Ovum í London. Hann segir að nýjungar í breiðbandstækni og tæknierfiðleikar, þar á meðal lekatruflanir, hafi orðið gagnaflutningum um raforkukerfi að falli. "Þróun annarra lausna hefur gengið mjög vel og þær hafa verið teknar í gagnið af þeim sem þekkja fjarskipti og hafa grunn að byggja á. Þetta er flóknara mál en svo að rafmagnsvír inn á heimili sé nægilegur," segir hann.

Þýsk veita vill halda áfram

Ennfremur ræðir Total Telecom við Manfred Müller, yfirmann gagnaflutninga um raforkukerfi hjá þýska orkufyrirtækinu Energie Baden- Württemberg AG. Fyrirtækið er nú á þriðja stigi prófana á framleiðslu Nor.Web og ætlaði að hefja starfrækslu kerfisins þegar prófunum lyki. "Samkvæmt reynslu okkar, sem höfum notað tæknina sem viðskiptavinir er ekkert vit í þessu," segir Müller um lokunina. "Okkar reynsla er sú að tæknin reynist vel," segir hann. "Viðbótarþróun er nauðsynleg en vandamálin eru ekki óleysanleg. Hann segir að EnBW muni halda markaðstilraunum áfram og Müller er enn bjartsýnn á möguleika þessarar tækni. "Ég held ekki að þetta séu endalok gagnaflutninga um raforkukerfið," segir hann.

Kemur á óvart, segir Helgi Hjörvar

"Þetta kemur á óvart," sagði Helgi Hjörvar, borgarfulltrúi og hvatamaður að stofnun Línu.Nets, dótturfyrirtækis Reykjavíkurborgar um lagningu ljósleiðara og gagnaflutninga um raforkukerfið, aðspurður um fréttirnar af lokun Nor.Web. "Okkur er kunnugt um að fjórir aðilar hafa lýst áhuga á að kaupa verkefnið af Nor.Web þannig að framtíð þess ræðst væntanlega á næstu vikum. Við erum í samvinnu við aðra viðskiptavini Nor.Web að fara yfir stöðuna og það skýrist væntanlega á næstu vikum hvað úr verður."

Helgi vildi ekki tjá sig nánar um málið að svo stöddu en um það hvort þessar fréttir væru ekki til þess fallnar að veikja tiltrú manna á þeirri nýjung sem felst í gagnaflutningum um raforkukerfið sagði Helgi að það væri alveg ljóst að þessi tækni hefði sannað sig. "Hún virðist hins vegar eiga mesta markaðsmöguleika í norðanverðri Evrópu og Nor.Web er aðeins einn af þeim aðilum sem hafa hannað hana. En það er of snemmt að segja til um hvað þessar fréttir bera með sér," sagði Helgi.

Samkvæmt upplýsingum Eiríks Bragasonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Línu.Nets, er framhald tilrauna Línu.Nets nú í endurskoðun, þrátt fyrir að mælingar hér á landi hafi gengið vel og að tæknin hafi sannað sig að öðru leyti. Eru viðræður hafnar við önnur fyrirtæki um framhald tilraunanna og önnur fjarskiptafyrirtæki með sambærilegan tækjabúnað.

Auk gagnaflutninga um raforkukerfið hefur Lína.Net gert samning við Íslandssíma um uppbyggingu ljósleiðaranets.

Framkvæmdir við ljósleiðaranet Línu.Nets ganga samkvæmt upplýsingum Eiríks vonum framar og styttist nú í að jarðvegsframkvæmdum við fyrsta áfanga ljúki. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við annan áfanga hefjist mjög fljótlega og mun þeim ljúka fyrir áramót. Í lok ársins muni ljósleiðarakerfið ná til meginhluta Reykjavíkursvæðisins og sé gert ráð fyrir að fyrstu viðskiptavinirnir tengist inn á netið í nóvember. Seinkun tenginga gegnum rafdreifikerfið hefur ekki áhrif á lagningu ljósleiðaranetsins þar sem um tvö aðskilin verkefni er að ræða, að sögn Eiríks.

Kemur því miður ekki á óvart, segir Inga Jóna

Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn og stjórnarmaður í Línu.Neti, sagði að þessi tíðindi, sem væru mjög alvarleg, kæmu sér því miður ekki mjög á óvart. "Þegar tillaga var uppi í borgarstjórn um að stofna hlutafélag um gagnaflutninga og fjarskiptaþjónustu þótti okkur þau gögn sem fram voru lögð ekki bera það með sér að málin væru nægilega skýr. Við vöruðum mjög mikið við því, og bentum á það ítrekað í umræðum í borgarstjórn í byrjun júní, að það væru mjög hæpnar forsendur fyrir þessu fyrirtæki. R-listanum lá hins vegar afar mikið á að koma þessu í gegn og það var í raun og veru keyrt í gegnum borgarstjórnina. Við óskuðum hins vegar eftir því að menn stöldruðu við og öfluðu sér frekari upplýsinga þar sem algjörlega væri ljóst að mjög mörg atriði, tæknileg og fjárhagsleg, væru byggð á hæpnum forsendum. Því miður er þetta komið á daginn," sagði Inga Jóna. "Það fyrirtæki, sem fulltrúar R-listans studdust mest við í sínum röksemdum, hefur ákveðið að hætta allri þróunarstarfsemi á þessu sviði þar sem þeir virðast komnir að þeirri niðurstöðu að gagnaflutningar eftir rafdreifikerfi séu ekki samkeppnishæfir.

Þetta eru alvarleg tíðindi og setja allt þetta mál í mikið uppnám. Það voru teknar 200 milljónir króna út úr Orkuveitu Reykjavíkur til að stofna fyrirtækið Línu.Net. Röksemdir okkar gegn því voru þær að við ættum ekki að nota skattfé Reykvíkinga til að fara í þróunarstarfsemi sem stórþjóðir treystu sér ekki í. Niðurstaðan varð önnur. Nú þurfum við að skoða mjög vel hvað er í húfi. Hversu mikla áhættu eru menn tilbúnir til að taka áfram. Nú verða menn að staldra við og meta hvort það er eitthvert vit í að halda áfram á þessari braut. Tíðindin eru alvarleg með hliðsjón af því að menn eru búnir að taka áhættu með fjármagn."

Stjórnarfundur Línu.Nets í dag

Inga Jóna kvaðst ekki vilja tjá sig um hugsanlegt tap Reykjavíkurborgar að svo stöddu. "Það er hlutur sem stjórn Línu.Nets verður að fara yfir, það hefur verið boðaður stjórnarfundur [í dag], og þar verður þetta mál rætt." Inga Jóna kvaðst m.a. á stjórnarfundinum mundu kynna sér þau gögn sem fram verða lögð og óska eftir upplýsingum um það sem fram kemur í fréttatilkynningu Línu.Nets og haft var eftir Eiríki Bragasyni hér að ofan að hafnar séu viðræður við önnur fyrirtæki um gagnaflutningana.

"Ég mun óska eftir upplýsingum um hvað þar er á ferðinni og hvað þau fyrirtæki byggi á traustum grunni," sagði Inga Jóna. "Ég veit ekki betur en allar orkuveitur sem voru að prófa þetta hafi verið í tengslum við Nor.Web þannig að mér er ekki ljóst hvaða fyrirtæki gætu tekið við þessu. Ég vil fá upplýsingar um hvaða næstu skref eru möguleg og ég hlýt að taka skref sem miða að því að fyrirbyggja að menn séu að fara út í frekari áhættu," sagði Inga Jóna.

Um það hvort hún teldi tilefni til að leysa Línu.Net upp sagði hún að fyrirtækið væri auk gagnaflutninganna búið að gera samning við Íslandssíma um ljósleiðaralagningu. "Það er annar þáttur málsins og kemur þessum ekki beint við. Þess vegna eru ekki forsendur til að leysa upp fyrirtækið. En við þurfum að fara yfir hvaða fjárhagslegu skuldbindingar hafa verið gerðar og á hvaða grundvelli við stöndum."

Inga Jóna kvaðst mundu skoða það í framhaldi af stjórnarfundinum í Línu.Neti hvort hún myndi taka málið upp á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur.