GRÍSKAR björgunarsveitir drógu í gær konu út úr rústum verksmiðju sem gjöreyðilagðist í jarðskjálftanum sem reið yfir Aþenu á þriðjudag, en litlar líkur voru taldar á að fleiri finndust á lífi. Miklar rigningar jóku mjög á eymd þess fjölda Grikkja sem standa uppi heimilislausir eftir skjálftann, eða búa í húsum sem ekki er talið óhætt að dvelja í.

Ólíklegt að fleiri

finnist á lífi í Aþenu

GRÍSKAR björgunarsveitir drógu í gær konu út úr rústum verksmiðju sem gjöreyðilagðist í jarðskjálftanum sem reið yfir Aþenu á þriðjudag, en litlar líkur voru taldar á að fleiri finndust á lífi. Miklar rigningar jóku mjög á eymd þess fjölda Grikkja sem standa uppi heimilislausir eftir skjálftann, eða búa í húsum sem ekki er talið óhætt að dvelja í.

Evi Vassilopoulos var dregin úr rústum verksmiðjunnar eftir að hafa legið þar 46 klukkustundir, eða allt frá því skjálftinn reið yfir á þriðjudag, en hann mældist 5,9 á Richtersskalanum. Að sögn gríska heilbrigðisráðuneytisins fórust áttatíu og þrír í skjálftanum en fjörutíu og fimm er enn saknað, og ekki taldar miklar vonir á að þeir finnist á lífi.

Leitarhundur björgunarmanna hafði fundið Vassilopoulos í fyrrinótt en það tók síðan allan gærdaginn að grafa hana úr rústunum. Kallaði eiginmaður Vassilopoulos til hennar á meðan björgunarmenn unnu starf sitt.

Þúsundir húsa í Aþenu eyðilögðust í skjálftanum og fjöldi fólks þurfti að eyða fyrrinótt undir beru lofti, annan daginn í röð. Voru sumir of óttaslegnir til að dvelja innandyra vegna þeirra fjölmörgu eftirskjálfta sem riðu yfir borgina.

Var verið að koma upp tjaldbúðum fyrir um sextán þúsund heimilislausa íbúa Aþenu í einu úthverfa borgarinnar en mikill skortur var hins vegar á tjöldum.

Björgunarmönnum berst erlendur liðsauki

"Við munum halda áfram að grafa eftir fólki dag og nótt uns allir eru komnir í leitirnar," sagði einn af björgunarmönnunum í gær, "en ég óttast að líkurnar á því að finna fleiri á lífi séu afar litlar."

Grískum björgunarsveitum hafði borist liðsauki frá Tyrklandi, Sviss, Frakklandi, Þýskaland, Rússlandi og Ísrael og þökkuðu grísk stjórnvöld hinum erlendu gestum kærlega fyrir aðstoðina.