EIGENDUR Nor.Web Ltd., sem eru breska raforkufyrirtækið United Utilities og kanadíska fjarskiptafyrirtækið Nortel Networks, hafa ákveðið að draga sig út úr gagnaflutningum um rafdreifikerfi og loka fyrirtæki sínu með 50 starfsmenn í Manchester á Englandi í lok mánaðarins. Nor.Web hafði átt í samstarfi við Línu.
Samstarfsaðili borgarinnar um gagnaflutninga í raforku hættir starfsemi Ástæðan samkeppni við breiðband

EIGENDUR Nor.Web Ltd., sem eru breska raforkufyrirtækið United Utilities og kanadíska fjarskiptafyrirtækið Nortel Networks, hafa ákveðið að draga sig út úr gagnaflutningum um rafdreifikerfi og loka fyrirtæki sínu með 50 starfsmenn í Manchester á Englandi í lok mánaðarins. Nor.Web hafði átt í samstarfi við Línu.Net, dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar, um tilraunir við notkun raforkukerfis til gagnaflutninga í Reykjavík. "Ákvörðunin var viðskiptalegs eðlis, ekki tæknileg, tæknin kom vel út við prófanir," er haft eftir talsmanni United Utilities í vefritinu TechWeb . "Ákvörðunin var tekin í ljósi samkeppnisstöðu gagnvart breiðbandsaðgangi."

Kemur því miður ekki á óvart

Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sagði í samtali við Morgunblaðið að þessi tíðindi, sem væru mjög alvarleg, kæmu sér því miður ekki mjög á óvart. "Við vöruðum mjög við því, og bentum á það ítrekað í umræðum í borgarstjórn í byrjun júní, að það væru mjög hæpnar forsendur fyrir þessu fyrirtæki. R-listanum lá hins vegar afar mikið á að koma þessu í gegn og það var í raun og veru keyrt í gegnum borgarstjórnina. Við óskuðum hins vegar eftir því að menn stöldruðu við og öfluðu sér frekari upplýsinga þar sem algjörlega væri ljóst að mjög mörg atriði, tæknileg og fjarhagsleg, væru byggð á hæpnum forsendum. Því miður er þetta komið á daginn," sagði Inga Jóna.

Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar og hvatamaður að stofnun Línu.Nets, sem stofnuð var með 200 m.kr. framlagi Orkuveitu Reykjavíkur, sagði að fréttirnar um Nor.Web kæmu sér á óvart.

"Okkur er kunnugt um að fjórir aðilar hafa lýst áhuga á að kaupa verkefnið af Nor.Web þannig að framtíð þess ræðst væntanlega á næstu vikum. Við erum í samvinnu við aðra viðskiptavini Nor.Web að fara yfir stöðuna og það skýrist væntanlega á næstu vikum hvað úr verður," sagði Helgi.



Stóðst ekki/18