SKÓLASTARF í Selásskóla í Seláshverfi í Reykjavík er þessa dagana helgað umhverfismennt og fer kennsla að miklu leyti fram utan skólans. Yngstu nemendurnir eru fyrst og fremst á skólalóðinni við ýmiss konar störf og verkefni, 3. bekkur fer um skólahverfið, 4.­ 6. bekkir fara vítt og breitt um nágrenni hverfisins, að Rauðavatni, í Rauðhóla og um Elliðaárdal og 7.
Nemendur í umhverfiskennslu í Selásskóla

Kennt í Elliðaárdal og í Rauðhólum

SKÓLASTARF í Selásskóla í Seláshverfi í Reykjavík er þessa dagana helgað umhverfismennt og fer kennsla að miklu leyti fram utan skólans. Yngstu nemendurnir eru fyrst og fremst á skólalóðinni við ýmiss konar störf og verkefni, 3. bekkur fer um skólahverfið, 4.­ 6. bekkir fara vítt og breitt um nágrenni hverfisins, að Rauðavatni, í Rauðhóla og um Elliðaárdal og 7. bekkur fer í gönguferð um fjöllin sem blasa við hverfinu í austri. Sumir bekkir eiga að afla sér upplýsinga bæði með því að fara um hverfið og nágrenni þess og spyrja þá sem kunnugir eru t.d. foreldra sína og nágranna.

Haustið 1998 hófst við Selásskóla þróunarverkefni við að efla umhverfismennt og útikennslu við skólann. Skólanum var mörkuð umhverfisstefna og leitast var við að flétta útikennslu inn í sem flestar námsgreinar og sérstök áhersla lögð á útiverkefni samhliða kennslu í upplýsingatækni. Vorið 1999 kom fram tillaga um að helga tvær vikur í upphafi skólaárs útikennslu og umhverfismennt og var það einróma samþykkt á kennarafundi í skólanum. Í sumar var unnið að því að þróa hugmyndir að hentugum verkefnum fyrir alla árganga skólans og semja kennsluleiðbeiningar sem umsjónarkennarar einstakra bekkja fengu í hendur þegar þeir mættu til starfa í haust.

Snemma sumars var ákveðið að Selásskóli yrði einn af móðurskólum í náttúrufræði í Reykjavík sem þýðir að aðrir skólar eiga að geta leitað þangað með hugmyndir að kennslu í þeirri grein. Verkefnin sem nemendur leysa af hendi á umhverfis- og útikennsluvikunum taka því ekki aðeins mið af um- hverfisstefnu skólans heldur byggjast þau öll á þrepamarkmiðum og áfangamarkmiðum í nýrri aðalnámskrá í flestum námsgreinum, ekki síst náttúrufræði, samfélagsfræði og lífsleikni.

Umhverfis- og útikennsluvikurnar í Selásskóla hófust 8. september og standa til 21. september. Verkefnisstjóri er Sigrún Helgadóttir, kennari og náttúrufræðingur, en skólastjóri Selásskóla er Hafsteinn Karlsson.

Morgunblaðið/Árni Sæberg Krakkarnir í Selásskóla voru áhugasamir um að kynna sér náttúru Elliðaárdalsins.