Guðmundur Ólafur Magnússon Kvaddur er kær vinur minn, Guðmundur Magnússon ættaður frá London í Vestmannaeyjum. Guðmund hef ég þekkt má segja alla mína ævi, ég var aðeins 4ra­5 ára gömul þegar foreldrar mínir fluttu á Framnesveg 21 í Reykjavík. Guðmundur og Áslaug kona hans bjuggu með dætur sínar þrjár, Eygló, Maggý, og yngst er Guðný á Öldugötu 59. Og lifa þær nú föður sinn. Nú eru þær hver með sína fjölskyldu, eiginmenn börn og barnabörn. Þessar fjölskyldur voru Guðmundi eitt og allt, það var sama hversu veikur hann var hann fylgdist með hverri hreyfingu sem við kom hans fólki. Börnin fæddust og aðrir áttu afmæli. Guðmundur tók þátt í öllu og nú síðast þegar Eygló vinkona mín og dóttir hans varð 60 ára, 21. ágúst sl. Það var í síðasta sinn sem ég sá þennan góða mann. Við vitum það öll að við verðum að fara héðan, okkur er áskapað að heilsa og kveðja. Þó erum við allaf óviðbúin þegar vinir skilja við, en minningin er ein eftir. Það reynir vissulega á þessa tilfinningu nú, því samviska mín segir mér að ég hefði átt að rækta garð Guðmundar meir og betur seinni árin en eins og sagt er það er of seint að iðrast eftir dauðann. Guðmundur var gæfusamur í einkalífi sínu, hann átti yndislega konu, hana Áslaugu sína, sem lést 23. desember 1991. Þau áttu miklu barnaláni að fagna og líka fékk hann vel lukkuð afa- og langafabörn. Guðmundur var elskaður og dáður af öllum og það er ég svo viss um að aldrei átti hann óvin á sinni löngu lífsleið.

Sorg fjölskyldu og vina er mikil og sár, en eitt verðum við líka að læra að dauðinn er líka kærkominn, það er að segja þegar fólk er orðið háaldrað eða eins og Guðmundur kominn yfir 90 árin sín, og heilsan farin að bila. En það er þetta með okkur mannfólkið, við erum svo eigingjörn, við viljum hafa alla sem við elskum hjá okkur. Við eigum nú að þakka Drottni fyrir að hafa tekið Guðmund til sín og gefið honum hvíld frá þrautum og þjáningum. Eitt langar mig að minnast á. Þegar ég var smástelpa, pabbi minn á sjó og mamma mín sjúklingur og erfiðleikar oft á mínu heimili. Þá átti ég alltaf athvarf hjá Áslaugu og Guðmundi, þótt þar væru gestir og næturgestir, alltaf var pláss fyrir óþekka smástelpu hvort það var við matarborð eða í hlýju rúmi til að sofa í. Mikið hef ég alltaf verið þakklát Guði fyrir að hafa haft sjálf heilsu og tíma þegar ég sat með Eygló vinkonu við dánarbeð Áslaugar síðustu sólarhringana sem hún lifði. Þá um leið getað launað lítilega allt það sem þau gerðu fyrir mig. Elsku Guðmundur minn, ég veit að nú líður þér vel og að nú hefur þú öðlast frið. Ég veit líka að hún Áslaug hefur tekið á móti þér og einnig þitt fólk sem farið hefur á undan þér. Ég vil þakka þér og Áslaugu fyrir það skjól og öryggi sem ég hafði hjá ykkur. Allar ljúfu minningarnar, allar heilbrigðu skoðanirnar, uppeldið, gjafmildina, þolinmæðina, síðast en ekki síst allan kærleikann sem þig gáfuð mér.

Ég votta börnum hans, tengdabörnum, afabörnum, og langaafabörnum mína dýpstu samúð. Eiga þau aðdáun mína á þeirri óeigingjörnu elskusemi og umhyggju sem þau hafa sýnt honum á erfiðu veikindaferli hans allt til hinstu stundar.

Guð blessi minningu Guðmundar Magnússonar.

Elsa Jóhanna Gísladóttir.