Haukur Jósefsson Nú er hann faðir minn horfinn yfir móðuna miklu. Síðustu árin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi og var ekki annað að sjá en hann kynni vel við sig þar, enda staðurinn vistlegur og starfsfólk sér í lagi gott. Eins og oft vill verða þegar hugur og minni fara að gefa sig lifði hann þarna að vissu leyti í sínum eigin heimi síðustu árin. Stundum gerist það að sterkustu skapgerðarþættir manna koma hvað skýrast í ljós við slíkar kringumstæður og þannig held ég að hafi verið um föður minn. Kímnigáfa, hnyttni í tilsvörum og gott skap virtist koma enn skýrar í ljós hjá honum, þrátt fyrir að líkaminn yrði stöðugt lúnari og hann ætti erfitt með hreyfingar. Og það eru einmitt þessi skapgerðareinkenni sem mér finnst svo áberandi í minningunum þegar ég hugsa aftur til veru minnar í foreldrahúsum. Léttur í skapi, barngóður, umburðarlyndur og oft ótrúlega þolinmóður, svo maður tali nú ekki um þegar maður hafði hina margfrægu "unglingaveiki" eins og það er orðað nú á dögum.

Maður velur ekki foreldra sína og ég held að ég hafi verið ansi heppinn með mína. Ég á til dæmis erfitt með að ímynda mér betri föður en Hauk Jósefsson. Hann hafði auðvitað eins og aðrir sín sérkenni og þegar ég var að alast upp fannst mér stundum svolítið skondið hvað hann faðir minn hafði dæmalaust dálæti á sveitinni. Mér, malbiksbarninu, kom þetta ansi skringilega fyrir sjónir og þó að ég færi í sveit eins og títt var um börn í þá daga held ég að ég hafi eiginlega ekki skilið þetta til fulls fyrr en ég sá mynd Ágústar Guðmundssonar, Land og syni, sem hann gerði eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar. Faðir minn tilheyrði nefnilega einmitt þeirri kynslóð sem lýst er í sögunni. Sveitamaðurinn sem flytur á mölina en á alltaf rætur sínar í sveitinni. Enda fullyrði ég það að í huga föður mins var enginn landskiki á þessari jarðarkringlu sambærilegur við Skagafjörðinn. Og hestarnir, maður lifandi. Yndislegri skepnur voru ekki til, enda fór það svo að þegar við ungarnir vorum flognir úr hreiðrinu og um hægðist hellti hann sér út í hestamennskuna af fullum krafti. Oft var gaman í útreiðartúrunum með honum. Þá var hann í essinu sínu. Og sjálfsagt hefur það verið vera hans í Búnaðarskólanum á Hólum sem rótfesti dálæti hans á íþróttum. Einkum og sér í lagi fótboltanum. Hann spilaði m.a. nokkuð fótbolta á yngri árum og ég er alveg handviss um að það hefur verið leitun að tryggari áhorfanda að enska boltanum þegar hann hófst í sjónvarpinu.

Faðir minn var hugsjónamaður. Hann átti sér nefnilega eina stóra hugsjón. Það var samvinnuhugsjónin. Hann var samvinnumaður fram í fingurgóma. Hann fór í Samvinnuskólann 1936­38. Hann vann hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga frá 1939 uns hann hætti störfum. Samvinnumenn voru hans átrúnaðargoð. Maður gat setið og hlustað andaktugur á þegar faðir minn talaði um samvinnuna og samvinnuhugsjónina. Hann var bókstaflega upphafinn þegar hann var kominn á flug. Ég held að í huga föður mins hafi ekkert það grettistak verið til sem samvinnuhugsjónin gat ekki lyft. Samt fór það svo að faðir minn lifði Sambandið. Og auðvitað var hann framsóknarmaður. Eysteinn Jónsson, Hermann Jónasson, Steingrímur Hermannsson, þetta voru hans menn. Á sínum yngri árum tók hann m.a. þátt í því að keyra fólk á kjörstað fyrir Framsóknarflokkinn og önnur slík viðvik.

Ég vil að lokum nota tækifærið í þessari stuttu minningargrein til að þakka fyrir hönd fjölskyldunnar því frábæra starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Eir sem gerði ævikvöld föður mins eins ánægjulegt og raun bar vitni.

Hilmar J. Hauksson