Hafsteinn Guðmundsson Sumir menn eru þannig að allt sem þeir gera er mótað af siðfágun og virðingu fyrir því starfi sem þeir eru að fást við hverju sinni. Frá því ég fyrst hitti Hafstein Guðmundsson fannst mér sem hann væri fulltrúi ríkrar menningarhefðar og listrænnar alvöru. Hjá honum fór saman einlæg ást hans á því besta í íslenskri menningu og arfleifð, og áhugi á því sem vel var gert í listsköpun heimsins.

Fyrstu kynni okkur voru er Hafsteinn hóf undirbúning að verki sem hann að eigin sögn hafði lengi velt fyrir sér og langað til að yrði að veruleika. Hann vildi gefa út margra binda verk um íslenska þjóðmenningu frá því á landnámstíma til vorra daga. Margir fremstu fræðimanna íslenskra unnu að því að skrifa í þetta rit og vildi Hafsteinn ekkert til spara að það gæti orðið sem veglegast. Kom þá vel í ljós smekkvísi hans og frábært auga fyrir handverki. Fjögur stór bindi þessa verks hafa þegar komið út.

Hafsteinn gaf út mörg merkileg verk, mörg þeirra tengd íslenskri menningu, þjóðtrú og þjóðsögum. Frágangur á öllum þeim bókum sem hann gaf út ber vitni alúð hans og óbrigðulu næmi á form og fegurð. Háskóli Íslands vottaði Hafsteini virðingu sína fyrir hinu mikla menningarstarfi hans með því að gera hann að heiðursdoktor. Var það að verðleikum.

Það var lærdómsríkt að koma í Þingholtsstrætið til Hafsteins og ræða við hann um hina ríku íslensku menningararfleifð sem hann var svo kunnugur og vildi varðveita og efla með útgáfu vandaðra rita. Ekki var síður heillandi að sjá hvernig hann umgekkst bækur og útskýrði fyrir mér hvert gildi snið og áferð hefðu.

Menning er að gera hlutina vel hefur verið sagt. Hafsteinn Guðmundsson var mikill menningarmaður.

Eiginkonu hans, börnum og ástvinum öllum flyt ég einlægar samúðarkveðjur.

Haraldur Ólafsson.