Hafsteinn Guðmundsson Oftsinnis meðan ég þreytti hin fornlegu fræði

fannst mér sem skrifarinn sjálfur hið næsta mér stæði,

hugurinn sá yfir hlykkjóttum stafanna baugum

hendur sem forðum var stjórnað af lifandi taugum.



Ólíkt er túninu gatan og glerrúðan skjánum

glymjandi strætisins frábrugðin suðinu í ánum,

lífskjörin önnur, en fýsnin til fróðleiks og skrifta

fannst okkur báðum úr dustinu huganum lyfta.



Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum

andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum,

kveiking frá hugskoti handan við myrkvaða voga

hittir í sál minni tundur og glæðist í loga.



Stundum var líkast sem brimgnýr er þaut mér í blóði,

bergmál af horfinna kynslóða sögum og ljóði,

hróðugur kvað ég þá stef mín í stuðlanna skorðum,

stofninn er gamall þótt laufið sé annað en forðum.



Bókfellið velkist og stafirnir fyrnast og fúna,

fellur í gleymsku það orð sem er lifandi núna,

legsteinninn springur og letur hans máist í vindum,

losnar og raknar sá hnútur sem traustast vér bindum.

Með þessum ljóðum Jóns Helgasonar langar mig að kveðja vin og vinnuveitanda Gísla míns um 30 ára skeið.Í minninguna hafa greipst síðustu starfsár Hafsteins og Gísla á Holtsgötunni, þar sem Helga kona Hafsteins stjórnaði af einstakri nærfærni og vináttu. Samúðarkveðjur til Helgu og barnanna.

Hólmfríður Jóhannesdóttir.