Valur Gautason Fagur drengur við lygnan sjó á Eskifirði.

Það var Valur um vor.

Fagur drengur að tína jarðarber í Bergsbrunna.

Það var Valur um sumar.

Fagur drengur í Hamrahlíðarskólanum.

Það var Valur um haust,

Fagur drengur í hringiðu lífsins.

Það var Valur um vetur.



Þú yfirgafst okkur þegar minnst varði.

Þú fórst án þess að kveðja.



Og þó.



Þú kvaddir, þegar þú sagðir mér að þú værir feginn að ég væri komin heim frá Spáni.

Þú kvaddir, þegar þú sagðir að börnin mín væru vel heppnuð.

Þú kvaddir, þegar þú sagðir að þú ættir bestu foreldra og bróður í heimi.

Þú kvaddir, þegar þú sagðir að fyrir þér væru allir menn jafnir ­ og jafn góðir.

Þú kvaddir, þegar þú sagðir að allt væri eitt.



Valur, þú kvaddir svo vel, í rauninni svo óendanlega vel.



Valur, þú með þínar miklu gáfur og einstöku hæfileika, sem þú aldrei nýttir

til fulls,

þú varst okkur svo mikilvægur og kær.

Valur, við munum aldrei kveðja þig að fullu.

Þess vegna verðurðu alltaf með okkur.



Hjartkæri frændi.

Freydís, Gauti, Hjálmar og ég kveðjum þig í bili.

Við sjáumst samt aftur og ræðum tilganginn, alheiminn, efnið og andann.

Allt sem okkur fannst skipta máli.

Við verðum kannski ekki sammála.

En það verður gaman ­ og eins og alltaf, ­ svo gott að vera saman.

Í þeirri vissu lifir þín vinkona í blíðu og stríðu.

Guðný Anna.