Sigríður Hálfdánardóttir Miðvikudaginn 8. september var frænka mín, Sigríður Hálfdánardóttir, borin til grafar og mig langar til að skrifa örfá minningarorð sem koma upp í huga mér á þessari stundu.

Í fyrstu vil ég þakka Siggu frænku og eftirlifandi eiginmanni hennar, Ólafi Halldórssyni, fyrir þá yndislegu áratugi sem ég hef verið svo heppinn að hafa þekkt þau.

Ég man svo vel eftir því þegar ég var smápolli og fór með foreldrum mínum til Reykjavíkur að heimsækja Siggu og Óla stóra, eins og hann var oftast kallaður.

Þá bjuggu þau á Nýlendugötunni og þaðan var svo stutt niður í slipp að skoða skipin eða þá niður á bryggju að veiða kola og marhnúta. Einnig átti maður það til að reyna að plata Siggu með sér niður að tjörn að gefa "bra-bra" brauð.

Seinna fluttu þau svo á Eskihlíðina og þar var maður alltaf velkominn. Þegar ég hafði lokið mínu skyldunámi hélt ég í tónlistarnám til Reykjavíkur, fyrstu tvo veturna var ég aðeins tvo daga í viku í námi og fór ég þá suður snemma á fimmtudagsmorgni og gisti þá alltaf hjá Siggu og Óla og gerðu þau sífellt grín að því hvað ég gat endalaust lesið sömu bókina sem þau áttu í einni hillunni, en það var Brasilíufararnir, alveg stórkostleg bók.

Á hverju hausti fór ég í Hraundalsrétt og síðar í Grímstaðarrétt þar sem Sigga og Óli voru alltaf komin meðal manna og söng Óli alltaf manna mest.

Jæjæ, nú ætla ég ekki að skifa meira að sinni. Elsku Sigga frænka, ég kveð þig með miklum söknuði og vona að þér líði sem allra, allra best, "sjáumst síðar".

Kæri Óli, ég bið að guð styðji þig og varðveiti um ókomna tíð.

Þinn frændi á Brennistöðum,

Hafsteinn Óðinn Þórisson.