Valur Gautason Í nokkrum orðum langar mig til að minnast Vals, sonar stjúpföður míns. Ég minnist þín sem athafnasams og fjörugs drengs. Þú hafðir öruggar og sjálfstæðar skoðanir og lést þær óspart í ljós. Ég leit ávallt upp til þín og skoðanir þínar skiptu mig máli. Ég man þegar þú varst hjá okkur eitt sumar í Hjarðarlundinum, hljómsveitin Kizz var þá í miklu uppáhaldi hjá þér. Herbergi þitt var þakið plakötum með þessum skrautlega máluðu hljómsveitarmeðlimum. Ég hafði svo gaman af að skoða þessi plaköt, þú gafst mér kartöfluflögur sem ég var að smakka í fyrsta skipti og ég kallaði þær kartöfluflugur. Mér fannst þær skrítnar og sterkar á bragðið en þær hlutu að vera góðar úr því að þér fannst það. Þú hafðir svo mikinn áhuga á tónlist. Ég man hvernig þú trommaðir á lærin á þér og slóst í borðplötuna þegar við sátum við eldhúsborðið heima. Nokkrum árum seinna fórum við ásamt foreldrum okkar til Júgóslavíu. Við deildum saman herbergi og einn morguninn vaknaði ég við það að þú varst að bjarga heilli hersveit maura úr bráðum lífsháska. Þú ljómaðir af góðvild miskunnsama samverjans allan daginn.

Ég á margar góðar minningar um þig frá því að við vorum börn og unglingar og þannig minnist ég þín.

Söknuður okkar allra er sár. Elsku Valur ég vona að þú hafir fundið frið í hjarta þínu og sál og trúi að þar sem þú ert nú líði þér vel.

Og dagurinn leið í djúpið vestur,

og Dauðinn kom inn til þín.

Þú lokaðir augunum ­ andartak

sem ofbirta glepti þér sýn.

Og um varir þér brá fyrir brosi þeirra,

sem bíða í myrkrinu og þrá

daginn ­ og sólina allt í einu

í austrinu rísa sjá.

(Tómas Guðm.) Katrín Snædal.