Hafsteinn Guðmundsson "Fagurt útlit bókar ræðst af mörgum þáttum: góðum pappír sem er þægilegur fyrir augað, fallegu og auðlæsilegu letri, þokkafullri leturbeitingu, nákvæmri prentun, vönduðu bandi sem staðið getur í stofu; en mestu skiptir þó að göfug hlutföll séu í broti bókarinnar, leturfleti og spássíum."

(Jan Tschichold) Fyrir allmörgum árum, þegar ég las ofangreind orð eins mesta áhrifamanns um bókagerð á þessari öld, varð mér ósjálfrátt hugsað til þess Íslendings sem að flestra dómi hefur gert bækur af hvað mestu listfengi á liðnum áratugum, en það er Hafsteinn Guðmundsson prentsmiðjustjóri, sem nú er látinn. Hafsteinn fæddist í Vestmannaeyjum 7. apríl 1912 og hóf prentnám 14 ára gamall. Þremur árum síðar réðst hann til Ísafoldarprentsmiðju og lauk þar námi hjá Gunnari Einarssyni. Fljótt bar á listrænum hæfileikum hans og árið 1940, meðan hann var sveinn hjá Ísafold, vann hann verk sem einstætt er í íslenskri bóksögu ­ og þótt víðar væri leitað ­ þegar hann lýsti bókina Prentlistin fimm hundruð ára, alls 135 eintök og engin tvö alveg eins. Með hverjum bókarkafla voru upphafsstafir og teikningar eftir Hafstein sem hann svo handmálaði; vissulega harla óvenjuleg sveinsvinna. Sumarið áður hafði hann farið til Kaupmannahafnar og hugðist stunda þar nám og störf um hríð, en úr því varð minna en skyldi vegna stríðsins sem skall á um haustið. Þó taldi jafnan hann að dvölin þar hefði orðið sér til mikils happs og hann hafi búið að því lengi sem hann lærði þá. Prentsmiðjan Hólar var stofnuð 1942 og stýrði Hafsteinn henni frá upphafi og til ársloka 1965. Aðalverkefni hans þar var að hanna og prenta útgáfubækur Heimskringlu og Máls og menningar. Slík útgáfa bóka í allstóru upplagi, bóka sem skyldu vera ódýrar en þó vandaðar að öllum frágangi, var nýjung hér á landi. Stærsta verkefni Hafsteins hjá Hólum var afmælisbókaflokkur Máls og menningar 1962, alls tólf bækur sem allar voru gefnar út í tvennskonar útgáfu. Margar eftirminnilegar bækur eru í þeim flokki, ekki síst Tvær kviður fornar þar sem það verkefni er leyst með miklum ágætum að fella saman vísur og viðamiklar skýringar. Árið 1966 lét Hafsteinn af stjórn Hóla og stofnaði eigið prentverk, Prenthús Hafsteins Guðmundssonar. Eitthvað mun hann þó hafa hannað áfram fyrir Mál og menningu og Heimskringlu, en auk þess vann hann í vaxandi mæli fyrir önnur forlög. Meðal þess sem hann hannaði fyrir Almenna bókafélagið má nefna fyrstu bækurnar í flokknum Íslensk þjóðfræði (Kvæði og dansleiki og Íslenska málshætti) og flokk níu bóka sem nefndur var Bókasafn AB Íslenskar bókmenntir, en fyrir Hið íslenska bókmenntafélag hannaði hann Lærdómsritin sem hófu að koma út 1970. Lærdómsritin eru gott dæmi um bækur í smáu broti sem Hafsteinn hefur hannað af mikilli list. Annað dæmi er ljóðabókaflokkur sá sem út kom hjá Heimskringlu uppúr 1960 (Milljónaævintýrið, Endurtekin orð ofl.). Og ekki má gleyma þeim búningi sem hann bjó Sögum og kvæðum Jónasar Hallgrímssonar og Ljóðmælum Gríms Thomsens, en báðar þær bækur stungu mjög í stúf við ríkjandi hugmyndir um viðhafnarútgáfur er þjóðskáldum væru sæmandi. Íslenskir þjóðhættir, sem komu út 1934, voru fyrsta bókin sem Hafsteinn Guðmundsson setti að öllu leyti, þá sveinn hjá Ísafold. Það var vel til fundið, því auk bókagerðarinnar var íslensk tunga og íslensk þjóðmenning ætíð helsta hugðarefni hans. Árið 1954 stofnaði hann ásamt fleirum bókaútgáfuna Þjóðsögu og eignaðist hana síðan einn nokkrum árum síðar. Fyrsta verk Þjóðsögu var endurskoðuð og stóraukin útgáfa þjóðsagna Jóns Árnasonar. Á eftir komu þjóðsagnasöfn Sigurðar Nordals og þórbergs þórðarsonar, Jóns Thorarensens, Ólafs Davíðssonar, þorsteins M. Jónssonar, og Sigfúsar Sigfússonar. Allar eru þær bækur líkar að frágangi, afar vandaðar, og um leið einfaldar og auðlæsilegar. Svo er einnig um þjóðsögur Jóns Árnasonar sem þó hafa óvenju breiðan leturflöt og eru settar smáu Bodoni-letri; leturfóturinn er hinsvegar mjög ríflegur og sátrið því aðgengilegt. Reyndar er sú útgáfa öll glæsilegt dæmi um góða hönnun á safnriti. Síðasta stórvirkið sem Þjóðsaga réðst í var safnritið Íslensk þjóðmenning, sem einsog nafnið bendir til átti að fjalla um íslenska menningu að fornu og nýju. Fjögur bindi komu út, öll samin af sérfræðingum í sínum greinum, ágætlega unnin og mjög vönduð að öllum frágangi, en útgáfan reyndist of kostnaðarsöm fyrir einkafyrirtæki og hætta varð útgáfunni í miðjum klíðum. Hér er ekki ráðrúm til að minnast á nema lítið brot þeirra bóka sem Hafsteinn hannaði. Athyglisverðar bækur sem nefna mætti til viðbótar þeim sem að ofan er getið eru tilaðmynda Vídalínspostilla (1945), Fornir dansar (1946), Íslenska teiknibókin í Árnasafni (1954), Rit Helga Pjeturss (1955), Leikrit Shakespeares (1956­75 og aftur 1982­91), Skáldkonur fyrri alda (1961­63), Rit Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi (1972-), Ritverk Sigurðar Nordals (1986­96). Hvað var það sem gerði Hafstein að þeim merka bókahönnuði sem hann var? Það var umfram allt sú rækt sem hann lagði við heildina, alla þætti bókarinnar: letrið, pappírinn, bandið, hlutföllin; hann uppfyllti að því leyti kröfur Tschicholds í tilvitnuninni hér að framan. Engum vafa er bundið að Hafsteinn hefur að upplagi verið gæddur óvenju ríkri formskynjun og góðri smekkvísi. En miklu máli hefur auk þess skipt að hann hélt alltaf áfram að mennta sig í grein sinni og fylgdist vel með því sem var að gerast erlendis. Til að styrkja formskyn sitt sótti hann tíma hjá listmálurunum Finni Jónssyni, Jóhanni Briem og Þorvaldi Skúlasyni. Einkum kvaðst hann hafa lært mikið af Þorvaldi, sem var að glíma við að ýmsu leyti svipuð vandamál og hann sjálfur, því prentlistin er flatarlist. Eftilvill var leturbeitingin sterkasta hlið Hafsteins. Benda má á kunnáttusamlega notkun hans á hásteflingum og fjölbreytni í millifyrirsögnum; þá er áberandi hversu næmt auga hann hefur fyrir stærð leturs og bilum með fyrirsögnum og fyrir öðrum hlutföllum milli hvíts og svarts. Í leturvali og uppsetningu aðhylltist Hafsteinn yfirleitt klassískar lausnir: notaði nær alltaf klassískar leturgerðir (einkum Garamond, Baskerville og Bodoni) og átti það til að grípa til bókaskrauts; og samhverf uppsetning ­ skipulagning útfrá miðju ­ var yfirgnæfandi á titilsíðum en þó enganveginn einráð. Tilaðmynda var meirihluti titilsíðna í afmælisbókaflokknum 1962 ósamhverfur. Starfsævi Hafsteins var löng og hann skildi eftir sig afar fjölbreytilegt verk. Eftilvill mætti tala um þrjú aðalskeið á ferli hans, og helstu dæmi hvers skeiðs um sig væru þá: 1) bókaflokkarnir sem hann hannaði á 6. áratugnum fyrir Mál og menningu, 2) afmælisbókaflokkurinn 1962 og ýmsar bækur í líkum stíl um svipað leyti, 3) þjóðsagnasöfnin á 8. áratugnum. En í húsi því sem Hafsteinn byggði eru margar vistarverur og því fer fjarri að þessir þrír flokkar rúmi bókagerð hans alla; fyrir utan standa tilaðmynda smábrotsbækurnar sem ég gat um að framan og eru að mínum dómi með því besta sem Hafsteinn gerði. Þegar ég spurði Hafstein einu sinni hvaða þátt hann teldi mikilvægastan við frágang bókar svaraði hann á þessa leið: "Læsileikinn er mikilvægastur. Það má aldrei gleymast að bækur eru til þess gerðar að vera lesnar. Það þarf að vera þægilegt að lesa bók og þægilegt að halda á henni. Pappírinn skiptir ákaflega miklu máli. Hann á ekki að vera skjannahvítur og hann má ekki vera of þungur, annars er óþægilegt og jafnvel ógerningur að lesa bókina uppí rúmi. Þyngdin þarf að vera í samræmi við efnismagn bókarinnar." Hafsteinn var enn að hanna bækur framyfir áttrætt. "Ég hef ekki orðið var við að formskynið hjá mér hafi laskast með árunum, nema síður sé," sagði hann við mig um það leyti. Í febrúar 1994 fékk Hafsteinn svo heilablóðfall og bækurnar urðu ekki fleiri. En þeir sem vilja kynna sér gott handbragð og listfengi í bókahönnun geta áfram leitað í smiðju hans. Þar er margt að læra. - Fjölskyldu Hafsteins Guðmundssonar votta ég einlæga samúð mína. Þorsteinn Þorsteinsson.