Guðmundur Ólafur Magnússon Mig langar til þess að minnast hans afa míns, Guðmundar Magnússonar, með fáeinum orðum. Fyrstu minningar mínar af afa og ömmu voru heimsóknirnar á Öldugötuna í Reykjavík. Alltaf tóku þau vel á móti manni og ýmislegt skemmtilegt var brallað. Mér hefur alltaf verið minnisstætt þegar ég og afi fórum að sækja nýja Galantinn hans og þennan Galant átti afi næstu 16­17 árin. Það skipti afa miklu máli að bíllinn væri alltaf sem glæsilegastur. En undir það síðasta var bíllinn orðinn ansi lúinn þrátt fyrir það að afi væri alltaf að nostra eitthvað við hann og það fór ekki á milli mála þegar afi kom í Mávahraunið í heimsókn til okkar.

Þegar ég var 14 ára fluttu amma og afi á Krókahraunið í Hafnarfirði, nánast í næstu götu við Mávahraunið, og nú var minnsta mál fyrir mig að fara í heimsókn til þeirra. Samgangur innan fjölskyldunnar hefur alltaf verið mjög mikill og oft borðuðu þau amma og afi hjá okkur á Mávahrauninu þannig að við afi vorum nokkuð samrýmdir. Afi var alltaf áhugasamur um íþróttir og var hann alltaf tilbúinn að ræða málin á þeim nótunum. Alltaf spurði hann um hvernig gengi í handboltanum hjá mér og alveg sama hvort vel eða illa gekk, hann var alltaf jafn áhugasamur. En alltaf hélt afi með sínum mönnum í ÍBV því meiri Eyjamann var varla hægt að finna.

Eftir að amma dó bjó afi einn og var því tíður gestur á heimili mömmu og pabba og áttum við þá góðar stundir saman.

Minningin um góðan mann lifir meðal okkar. Þótt alltaf sé erfitt að kveðja þá sem manni þykir vænt um hafði afi lifað sínu lífi og átt góða ævi. Við Hildur vottum mömmu, Eygló, Guðnýju og öðrum aðstandendum samúð okkar.

Sturla.