Guðmundur Ólafur Magnússon Í dag kveðjum við ástkæran afa okkar, Guðmund Ólaf Magnússon. Harmur okkar er mikill þrátt fyrir að afi hafi náð háum aldri og lifað góða ævi. Afi skilur eftir sig stórt skarð hjá okkur þar sem hann var kjarni fjölskyldunnar og hélt vel utan um hana. Alltaf var sama hlýjan og umhyggjan sem streymdi frá honum. Hann tók mikinn þátt í okkar lífi og fylgdist vel með velgengni okkar í lífi og starfi. Hann var alltaf manna glaðastur ef vel gekk og manna spenntastur þegar kom að veislum í fjölskyldunni. Afi var mjög lífsglaður maður og draga má af honum þann lærdóm að hugurinn ber mann hálfa leið. Sem dæmi um þetta má nefna, þrátt fyrir mikil veikindi, setti hann sér þau markmið að lifa ákveðin tímamót í fjölskyldunni s.s. fæðingu langafabarnanna sinna. Þegar þeim markmiðum var náð voru önnur sett. Margar og góðar eru æskuminningarnar sem koma upp í hugann á þessari stundu sem ekki verður fyllilega lýst. Alltaf þótti okkur gaman að koma til afa og ömmu á Öldugötuna og ósjaldan gaf hann okkur pening eða fór með okkur í verslunina Baldur til að kaupa nammi. Þegar horft er til baka má velta því fyrir sér hvort börnin eða afinn hafi fengið meira út úr þeim ferðum, því sjálfur var hann mikill sælkeri. Gummi afi var mjög léttur í lund og afskaplega stríðinn. Ef hann var beðinn um að keyra varlega heim, átti hann það til að spóla út götuna. Afi var alltaf mjög ungur í anda og fylgdist vel með fótbolta og handbolta. Þegar umræðan snerist að íþróttum var aldursmunurinn enginn. Eftir að Áslaug amma dó fór afi að fikra sig áfram í eldamennsku og vöfflugerð, eitthvað sem ekki er við að búast af manni á níræðisaldri.

Elsku afi. Þú varst einstakur persónuleiki. Það voru forréttindi að fá að kynnast þér. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

Signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.) Steingrímur, Ingibjörg, Henrik og Ásgeir.