Guðmundur Ó. Magnússon Elsku afi minn. Nú ertu farinn í ferðalag þar sem kærleikurinn og farnir ástvinir taka á móti þér. Hún amma tekur á móti þér og þú segir henni frá því sem gerst hefur, og þú kemst að því að hún amma hefur vakað yfir þér og okkur öllum, og nú vakið þið saman yfir okkur sem söknum ykkar svo sárt.

Hann afi minn var fæddur í Vestmannaeyjum og var alla tíð mjög stoltur af öllu sem snerti Eyjarnar. Við fórum margar ferðir saman til Eyja og alltaf var hann að kveðja Eyjarnar frá því að ég man eftir mér. Hann var mjög stoltur í Eyjum, þegar þar var haldið ættarmót 1995, þar sem afkomendur hans voru samankomnir ásamt frændsystkinum afa og fjölskyldum. Afi var vel að sér hvað íþróttir varðar og horfði jafnan mikið á allar boltagreinar í sjónvarpi og fylgdist mikið með til síðasta dags, þar sem við ræddum um hvaða lið myndi nú ná að verða Íslandsmeistari. Hann var góður stuðningsmaður þegar ég átti í kappi á vellinum og alltaf tilbúinn að gefa góð ráð.

Síðustu ár var afi búinn að vera mikið veikur, en með ótrúlegri jákvæðni og baráttu tókst honum að halda áfram því hann vildi ekki missa af neinu þegar fjölskyldan átti í hlut. Hann ætlaði sér og honum tókst, með viljann að leiðarljósi, hann sá alltaf ljósið í myrkrinu.

Það var stór stund fyrir mig þegar ég fór í heimsókn til þín á Hrafnistu í júní, með videóvél til að sýna þér nýfæddu barnabarnabörnin, og það var enn stærri stund þegar við Oddný fórum í ágúst í heimsókn með Bríeti og Viktor til þín á Hrafnistu, það var stund sem aldrei gleymist.

Hann afi var mikið gefinn fyrir að fjölskyldan kæmi saman og fagnaði á tímamótum, og var gaman að sjá hvað hann var stoltur í skírnarveislunni hjá Bríeti og Viktori í júlí, og í sextugsafmælinu hennar mömmu, hinn 21. ágúst síðastliðinn.

Elsku besti afi minn, það verður mjög skrítið að sjá þig ekki á Mávahrauninu hjá mömmu og pabba, og það verður skrítið fyrir Bríeti og Viktor að fá ekki að kynnast honum Gumma langafa sínum betur, honum sem hefur kennt okkur hinum svo mikið, með hógværð, raunsæi og æðruleysi.

Hvíl þú í friði, elsku afi minn og hafðu þökk fyrir allt og allt.

"Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt ykkar spor snertir mig og kvelur ­ þótt látinn mig haldið. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, sál mín lyftist upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur. Og ég ­ þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu." (Höf. óþ.) Guðmundur Hreiðarsson.