Guðmundur Ó. Magnússon Nú ert þú farinn frá okkur elsku afi, til hennar ömmu. Ég veit að þú munt fylgjast vel með okkur í framtíðinni þar sem ekkert fór fram hjá þér. Þú vildir alltaf fá að vita hvað hver var að gera hverju sinni.

Þú varst fæddur í Vestmannaeyjum, kallaður Gummi frá London. Allir sem þig þekkja muna að þú varst alltaf svo góður, skiptir aldrei skapi og vildir gera gott úr öllu.

Síðustu árin varst þú búinn að vera oft veikur, en lífsvilji þinn var svo mikill því þú vildir ekki missa af neinu. Þú varst svo ákveðinn að vera á lífi þegar mamma yrði sextug, 21. ágúst síðastliðinn. Ég man þegar ég keyrði þig heim um kvöldið, hvað þú varst ánægður, því þú hafðir skemmt þér svo vel þetta kvöld.

Ég og fjölskylda mín kvöddum þig svo tveimur dögum seinna þegar þú varst hjá mömmu og pabba, því við vorum að flytja til Þýskalands. Ég man þegar ég talaði síðan við þig kvöldið áður en þú kvaddir, hvað þú varst hress þótt þú værir mikið lasinn, og það síðasta sem þú sagðir var "Við sjáumst um jólin".

Barnabarnabörnin Hreiðar Geir og Kristín Björg eiga erfitt með að skilja af hverju þau fá ekki að hitta þig aftur. Það verður því tómlegt fyrir okkur þegar við komum heim um jólin, elsku afi minn, að hafa þig ekki nálægt eins og það hefur alltaf verið frá því að ég man eftir mér.

Elsku afi, hvíl þú í friði.

Áslaug Hreiðarsdóttir.