Guðmundur Ó. Magnússon Elsku afi minn, það var erfið stund þegar mamma hringdi í mig á fimmtudagsmorgun og sagði að þú værir dáinn. Elsku afi, nú hefur þú sofnað svefninum langa og hitt hana ömmu Áslaugu, en þið voruð alltaf mjög samrýnd hjón. Elsku afi, alltaf er erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um þann sem manni þykir svo vænt um. Elsku afi, alltaf varst þú svo kátur og glaður maður, þú vildir fylgjast með öllu sem var að gerast í kringum þig. Mér er það svo minnisstætt þegar við Maggi vorum að byggja síðasta sumar að þú vildir fá að koma upp í hús og fylgjast með því sem var að gerast og því hvernig gengi, enda kölluðu iðnaðarmennirnir þig yfirverkstjórann. Á mánudagskvöldið þegar ég og stelpurnar mínar komum til þín var það fyrsta sem þú spurðir mig um hvort það væri búið að tyrfa og setja niður tré, þegar ég sagði að svo væri sagðir þú: Nú verð ég að koma og fá að sjá. Mér er líka svo minnisstætt elsku afi þegar ég og Maggi giftum okkur 6. júlí 1996 á afmælisdaginn þinn. Þá sagðir þú við mig að þetta væri ódýrasta afmælisveisla sem þú hefðir haldið.

En elsku afi, Eygló Önnu og Margréti Sif finnst nú svolítið skrítið að eiga ekki eftir að geta heimsótt þig, eða þú að koma til okkar og vera með okkur þegar eitthvað stendur til, því þú vildir aldrei missa af þegar eitthvað stóð til með fjölskyldu þinni, sem þér þótti svo vænt um.

Hvíl þú í friði elsku afi minn. Hafðu þökk fyrir allt.

Ólafía og fjölskylda.