Sólveig Snæbjörnsdóttir Eins og laufin sem falla af trjánum nú þegar haustar er fallin frá amma mín eða amma í Reykjó eins og ég kallaði hana þegar ég var lítil. Alltaf var gaman að sækja ömmu heim til Reykjavíkur. Leika sér með dótið hennar, rúllurnar, naglalökkin, kremin, hattana og skóna. Amma var nefnilega alltaf svo fín. Hún var nútímaamma sem vann úti og keyrði bíl. Var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Hún hafði tíma til að leyfa okkur barnabörnunum að gista þegar við vildum og var dugleg að heimsækja okkur í Hafnarfjörðinn. Oft sat hún hjá okkur og svæfði með söng og bænalestri. Hún var svo mikil söngkona. Hún söng dægurlög og sálma. Hún söng í kirkjukór og var því stundum kölluð amma kristna af okkur krökkunum. Amma varð aldrei gömul enda vildi hún ekki verða gömul. Það var bara ekki hennar stíll. Hún vildi ekki láta kalla sig langömmu. Börnin mín kölluðu hana ömmu frammi. Það kom til þegar amma lá fótbrotin á heimili foreldra minna frammi í forstofuherbergi og sonur minn Baldur Örn, þá á öðru ári, spurði hvar amma væri. Honum var svarað að hún lægi frammi. Eftir það var hún alltaf kölluð amma frammi af honum og okkur hinum í fjölskylduni og sætti hún sig alveg við það. Amma var mikil félagsvera og vildi alls staðar vera þar sem fólk var. Hún lét sig sko ekki vanta í veislur og sat jafnvel manna lengst. Það var aðdáunarvert hvað hún var dugleg að muna eftir afmælisdögum barnabarnanna og barnabarnabarnanna og mæta í afmælin þeirra.

Það sem má læra af þessari konu er að vera jákvæður, taka breytingum með jafnaðargeði og trúa á það sem maður gerir. Síðast þegar ég heimsótti hana fór ég með naglalakk til hennar sem hún hafði beðið mig að kaupa. Ég lakkaði á henni neglurnar. Hún átti það skilið.

Mér finnst það tilheyra að láta hér fylgja bæn með þessum orðum um þessa mætu konu sem fór héðan sátt við sitt hlutskipti. Minning um góða konu lifir.

Leið þú mína litlu hendi

ljúfi Jesú þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu

blíði Jesú að mér gáðu.

Hafdís og fjölskylda.