Sólveig Snæbjörnsdóttir Þær eru margar minningarnar sem vakna þegar við bræðurnir kveðjum ömmu Sólveigu, því hún var tíður gestur hjá okkur á Hjallabrautinni.

Alltaf var hún okkur til halds og trausts á uppvaxtarárunum. Ófá voru þau skiptin þegar hún tók á móti okkur heima með smurt brauð og kakó þegar við komum þreyttir úr skólanum eða af fótboltaæfingum.

Amma var oft hjá okkur þegar foreldrar okkar voru að vinna eða að heiman og mörg voru þau skiptin sem búið var að taka til í herbergjunum okkar og stundum gekk okkur erfiðlega að finna hlutina. Þá kom iðulega spurningin: "Var amma hérna." Þegar að var gáð hafði hún jafnvel tekið buxurnar eða bolinn sem að var leitað til þess að laga litla saumsprettu.

Ein af minningum okkar um ömmu eru jólin. Hún var alltaf hjá okkur á aðfangadagskvöld og þegar við vorum yngri horfðum við með aðdáun á pakkahrúguna sem safnaðist undir jólatréð. Þegar kom að því að dreifa pökkunum kom í ljós að amma átti stóran hluta af gjöfunum, því allir vildu gleðja ömmu. Hún lét sér ekki nægja að eiga flesta pakkana, hún fékk oftast möndluna í grautinn sinn. Seinna um kvöldið endaði möndlugjöfin, sem oftast var konfekt, í maga okkar bræðranna því ömmu fannst sælla að gefa en þiggja.

Elsku amma, við eigum margar góðar minningar um þig sem við munum geyma með okkur.

Blessuð sé minning þín.

Eiríkur, Ólafur og Helgi.