Stefán Þormóðsson Stundum gerast atburðir sem breyta veröldinni. Mín veröld breyttist þegar Stefán lést. Hún breyttist þó trúlega meira fyrir tæpum aldarfjórðungi þegar Stefán og móðir mín rugluðu saman reytum sínum. Við Stefán urðum þá þegar góðir vinir og hefur sú vinátta verið mikil og góð síðan. Eitt af því sem einkenndi Stefán var áhuginn. Hann gat fengið áhuga á öllu mögulegu. Hvort sem um var að ræða fiskarækt, hnýtingar, blómin, heilsuræktina, hollustuna eða eitthvað annað, þá var ekki um neina hálfvelgju að ræða og hann vildi ná árangri í því sem hann tók sér fyrir hendur. Ég minnist þess þegar bílskúrinn heima hjá okkur var undirlagður af fiskabúrum, þegar Stefán hnýtti blómahengi og gaf vinum og vandamönnum, þegar hann ræktaði postula og reyndi að ná fram nýjum litaafbrigðum hjá blómunum, þegar hann hvatti mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og gaf góð ráð.

Stefán var ákveðinn og fylginn sér. Um sextugt gekkst hann undir erfiða hjartaaðgerð í London. Hann var ákveðinn í því að komast til heilsu á ný. Hann fékk mikinn áhuga á líkamsþjálfun og hollu mataræði. Eins og fyrri daginn var ekkert gefið eftir og á undraskömmum tíma komst hann til góðrar heilsu. Áhugi hans á hollu líferni kom meðal annars fram þegar hann eldaði og bakaði. Hann hafði gaman af því að útbúa mat úr lífrænt ræktuðu hráefni. Ég man eftir krúskunni sem hann eldaði á hverjum degi í mörg ár og margir muna eftir pönnukökunum hans, en í þeim var ekkert hvítt hveiti. Stefán var mjög laghentur og má víða sjá eftir hann fallegt handbragð. Hann stundaði flísalagnir sem aukavinnu í mörg ár og hvar sem við bjuggum var hann óþreytandi að bæta og endurnýja. Gilti þá einu hvort um var að ræða smíðar, múrverk, dúklagnir eða annað sem þurfti að framkvæma. Þegar Stefán komst á eftirlaun undi hann sér best í garðinum og gróðurhúsinu. Þar ræktuðu þau mamma sér grænmeti og ávexti. Garðurinn var ekki nóg og þau tóku flag í fóstur á Suðurlandi. Þangað óku þau margar ferðir með mold og gróður á litla pallbílnum og árangurinn lét ekki á sér standa.

Þótt Stefán hafi ekki notið langrar skólagöngu var hann víðlesinn. Hann átti mikið af bókum um ólíklegustu málefni. Hann las mikið um andleg málefni og var trúaður. Hann hafði sterkan persónuleika og hafði áhrif á alla sem kynntust honum. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Stebba að vini öll þessi ár. Hann kenndi mér margt og reyndist ávallt vel. Síðustu tvö árin var hann veikur. Hann þurfti að ferðast að mestu um í hjólastól, enda líkaminn lamaður öðrum megin. Hann reyndi samt að leggja hart að sér við endurhæfingu til að ná bata. Honum hafði ávallt tekist það áður. Stundum uppskar hann framfarir og þá var hann afskaplega stoltur. En síðustu vikur hrakaði honum mikið og ég held að hann hafi verið feginn þegar hvíldin kom.

Þeir sem eftir standa sakna góðs drengs, en minningarnar um Stebba munu lifa með okkur.

Óskar.