Stefán Þormóðsson Elsku Stebbi, núna ertu farinn og kemur aldrei aftur. Það eina sem ég get, er að þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér og eiga minningarnar um þig. Það fyrsta sem ég man eftir eru öll spilin okkar. Við gátum spilað Ólsen-ólsen frá morgni til kvölds og alltaf var það jafn gaman. Þú varst alltaf vanur að segja mér frá svo mörgu og gast alltaf svarað spurningum mínum, hversu erfiðar sem þær voru. Ég man líka eftir því að ég kallaði þig Plastos því þú sagðist vera plast-afi minn. Þó að engin blóðbönd væru á milli okkar varstu mér sem afi og hafðir alltaf nægan tíma fyrir mig. Ég veit að bræður mínir sakna þín líka. Nú kveð ég þig og veit að þér líður betur þar sem þú ert núna. Takk fyrir allt. Ég bið Guð að gefa ömmu og öllum sem sakna Stebba styrk.

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

(Sálmur 121.1-2.) Þín

Arna.