Anna Ólafsdóttir Mig langar til að skrifa örfá kveðjuorð um tengdamóður mína, Önnu Ólafsdóttur, sem nú er látin. Anna fæddist á Vindheimum í Tálknafirði þar sem foreldrar hennar bjuggu. þau eignuðust 16 börn, 11 dætur og fimm syni. Faðir hennar var fatlaður, fékk berkla í annað hnéð þegar hann var rúmlega tvítugur og hafði staurfót eftir það. Fátækt var mikil hjá þeim eins og víðar á þeim árum og varð það hlutskipti Önnu að fara í fóstur til vandalausra. Henni féll það afar þungt og fannst það á henni alla tíð. Um tvítugsaldur flutti Anna til Reykjavíkur. Þar kynntist hún Bjarna Bæringssyni frá Keflavík í Rauðasandshreppi og gengu þau í hjónaband 1932. Þau Bjarni og Anna fluttu norður að Drangsnesi 1934. Þar var Bjarni sjómaður og vann við smíðar og annað sem til féll. Þau bjuggu að hætti fólks í kauptúnum landsins á þessum árum, áttu eina kú og nokkrar kindur. En árið 1948 missti Bjarni heilsuna, fékk krabbamein og lést úr því eftir uppskurð í London 5. nóvember 1949. Þá varð dimmt yfir hjá Önnu, hún stóð uppi með fimm börn og það sjötta ófætt. Atvinnuástand var þá mjög slæmt á Drangsnesi, síldin var farin og fiskigengd lítil á þessum árum. Fólkið flutti burt í stórum stíl. Á þessum árum voru almannatryggingar ekki eins og í dag. En Anna gafst ekki upp. Árið 1954 flutti hún frá Drangsnesi og fór með yngstu börnin að vinna í sveit, fyrst á Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi á Snæfellsnesi og síðan að Stóru-Mástungu í Gnúpverjahreppi. Árið 1956 flutti hún svo til Reykjavíkur og átti heima þar upp frá því. Það ár hóf hún sambúð með Pétri Ólafssyni frá Hænuvík í Rauðasandshreppi. Þau bjuggu saman í rúm 20 ár uns Pétur lést. Pétur reyndist Önnu og börnum hennar afar vel, hann var traustur maður og áreiðanlegur en hann var ekki allra eins og sagt er. Þau Anna og Pétur bjuggu um árabil í Básenda 11, síðan í Ljósheimum 16 og síðast á Kleppsvegi 134 og þar átti Anna heima meðan kraftar hennar entust til að sjá um sig sjálf. Anna var hörkudugleg til vinnu og mjög vel verki farin. Aldrei féll henni verk úr hendi. Saumaskapur hennar var með fallegu handbragði, hnökralausu, og hún heklaði dúka úr fínu garni fram á síðustu ár og þá suma stóra. Anna var traustur vinur vina sinna en gat verið harður andstæðingur ef því var að skipta. En fyrst og fremst bar hún hag barna sinna og barnabarna fyrir brjósti. Ég kynntist Önnu fyrir nákvæmlega 41 ári þegar við hjónin hófum okkar kynni. Síðan hef ég að vonum haft mikil samskipti við hana sem hafa verið farsæl til hinstu stundar og það vil ég þakka. Anna var ein af þessum hetjum sem glíma við erfiðleikana í þessu lífi en gefast ekki upp. Fyrir því fólki ber ég virðingu. Ég vil svo þakka Önnu samfylgdina í þessu lífi og bið henni velfarnaðar í nýrri tilveru. Blessuð sé minning hennar. Daníel Jónsson.