Hafsteinn Guðmundsson Það haustar í landinu. Húmið sígur inn yfir Landeyjarnar. Það stendur lítill drengur í túninu í Gularási og horfir út yfir sjóinn til Eyja. Stór augu hans stara gegnum kvöldmyrkrið á ljósin í Heimaey. Það hníga tár ofan hvarmana, stór og þung. Hann sleikir þau með tungunni þegar þau leggjast í munnvikin. Varir hans bærast, titra og hann hvíslar út í myrkrið, fyrst lágt, síðan hærra, hærra, þar til hann brestur í óstöðvandi grát. Mamma, mamma því sendirðu mig frá þér? kallar hann út í myrkrið. Því sendirðu mig frá þér? Ekkasogin berast í kvöldkyrrðinni, sár eins og kveðjur sem ekki fá hljómgrunn. Drengurinn er sex ára og hefur verið sendur upp á land í fóstur. Þetta er hann Happi litli, fínlegur drengur, elstur þriggja systkina, fæddur í Eyjum, sonur Guðrúnar Kristjánsdóttur frá Auraseli í Fljótshlíð og Guðmundar Helgasonar sjómanns frá Grímsstöðum í Landeyjum, sem slitu samvistir. Og lítill drengurinn skelfur í ekkasogunum. Hann skilur ekki hvers vegna móðir hans, það besta sem hann átti, gat sent hann í burtu, einan systkinanna. Af hverju, mamma? hrópar hann aftur og aftur út í náttmyrkrið, en fær engin svör. Þráin, söknuðurinn, treginn hlaðast upp í brjósti hans þar til allt ætlar að springa, þá strýkur hann út í Eyjar, 12 ára gamall. Þessi drengur er hann pabbi minn, pabbi minn, sem mér þykir svo vænt um, hann Happi í Heiðardal. Svo fínlegur, smágerður með svo undurfalleg augu, sem hugsuðu og töluðu fyrir sig sjálf. Augu sem skildu litlu stúlkuna svo vel sem kom í heimsókn til hans á sunnudögum því hildarleikur stríðsins hafði rofið þeirra daglegu samvistir. Fallega móðir hennar og hann áttu ekki samleið. Væringar og vonleysi stríðsins lögðust þungt á marga. Heyrðu manni, sjáðu, ég hef eignast bróður! Ha, sagði maðurinn í brekkunni við Þingholtsstrætið og horfði undrandi á litla hnátu með langa fætur í sportsokkum og með dökk kringlótt augu. Já, þetta er hann bróðir minn. Þetta er hann Gunnar, ég eignaðist hann í gær. Jæja, sagði maðurinn. Ég hef nú átt að venjast því að ef og þegar maður eignast bróður þá komi hann blautur úr móðurskautinu, en sprangi ekki um í sparifötum, stífkrullaður og farinn að tala. Jú víst er hann bróðir minn, sagði hnátan. Víst er hann bróðir minn. Ég eignaðist hann í gær. Hann pabbi minn sagði það. Hann vinnur þarna, og hnátan benti upp á stórt steinhúsið. Prentsmiðjan Hólar. Flesta sunnudaga hoppaði hún upp stigann upp á efstu hæðina í Hólaprenti, bankaði á dyrnar og falleg og góð kona bauð hana velkomna með kossi. Litla stúlkan hafði eignast fjölskyldu og systkin. Svo fékk hún að fara með pabba sínum niður í prentsalinn og í bókbandið og sá hvernig hann lék við bækurnar með fínlegum höndum sínum, fór um þær eins og gersemar, og hún skynjaði fljótt að bók í hendi hans var eins og heilsan við vin. Jæja, Dröfn mín, ertu að fara að gifta þig, sagði hann. Þá stóð hún ung með piltinn sinn sér við hönd á skrifstofunni hans. Hann horfði lengi án orða á piltinn við hlið hennar, svo leit hann til hennar, augu þeirra mættust, ekki orð, hann hafði samþykkt hann. Þau skildu hvort annað. Áttu eitthvað í búið? spurði hann svo. Hansahillur, kannski stól? Já, það á ég. Það er gott Dröfn mín. Gangi ykkur vel. Þetta var hann pabbi minn. Þetta var Hafsteinn Guðmundsson. Óviðjafnanlegur maður, svo fínlegur, hugsandi, athugull. Listamaður af Guðs náð sem lagði líf sitt og hjarta í öll sín verk. Brimið við Eyjar hafði heillað hann ungan. Þó ekki til að sækja sjóinn heldur var það formið, fegurðin og krafturinn sem í því bjuggu sem gáfu honum þrek, þrek til að takast á við lífsins brim sem hann stóð svo vel af sér við hlið elskulegrar konu og með óbilandi trú á fegurðina og tilgang lífsins hér á jörðu og svo að lokum trúna á unaðsdvöl undir eilífðarsól almættisins. Elsku pabbi minn, lítil stúlka í sportsokkum naut hlýju þinnar og ástar, ung kona naut hvatningar og virðingar. Því gleymi ég aldrei. Ég þakka þér langa samfylgd, börnin mín og maki þakka þér langa samfylgd. Þú fegraðir líf mitt í æsku og vexti, þú fegraðir líf íslensku þjóðarinnar með handverki þínu og hugsun. Hafðu hjartans þökk fyrir kærleika þinn. Þín dóttir, tengdasonur, börn og barnabörn. Dröfn og Arthur.