Haukur Jósefsson Okkur langar til að minnast afa okkar í örfáum orðum. Við systurnar vorum lengi vel einu barnabörnin hans afa og einhvern veginn eru það minningar frá því við vorum krakkar sem koma upp í hugann núna. Ljóslifandi er minningin um afa á gömlu Bjöllunni, fullri af dóti, og ekki datt okkur í hug annað en það hefði allt mikilvægu hlutverki að gegna, ef ekki í hesthúsinu þá einhvers staðar annars staðar. Hestarnir sem afi átti þegar við vorum litlar voru mjög spennandi, þótt bæði vantaði upp á kjarkinn og árin til að geta farið með í útreiðartúra. Heima við fann maður afa oftar en ekki dottandi fyrir framan sjónvarpið, með ensku knattspyrnuna á og Morgunblaðið hálflesið.

Seinni árin leitaði hugur hans oft til baka og fannst honum þá gaman að ræða um gamla tíma og segja frá því hvernig lífið var í sveitinni þegar hann var að alast upp. Síðustu árin bjó afi á hjúkrunarheimilinu Eir þar sem vel var um hann hugsað þegar hann sjálfur hafði ekki lengur þrek til daglegra athafna. Við kveðjum afa í dag og minnumst hans með hlýju.

Svava Rán og Hildur Ýr.