Haukur Jósefsson Því er líkt farið um sanna hugsjónamenn nú á tímum og tveggjastafa hitatölurnar í veðurfréttunum þessa haustdaga, hvort tveggja er á hröðu undanhaldi. Einn slíkur hugsjónamaður var hann faðir minn elskulegur, Haukur Jósefsson. Hann hafði þessa óbilandi trú á samvinnuhreyfingunni, landbúnaðinum og fólkinu í landinu.

Pabbi ólst upp í fjölmenni og félagsanda á menntasetrinu Hólum í Hjaltadal, þar sem hann stundaði glímu og aðrar íþróttir af kappi með "piltunum", drakk í sig boðskapinn á skólanum og átti góða æsku. Þar voru línurnar lagðar. Allar götur upp frá því trúði hann á samtakamátt bænda, var trúr sinni sannfæringu og vann af heilindum í þeirra þágu.

Því eru bernskuminningar mínar nátengdar Sambandinu. Samband íslenskra samvinnufélaga var vinnustaður pabba alla tíð þar sem hann var deildarstjóri byggingavörudeildar. Allir á heimilinu vissu að á vorin, þegar von var á timburförmunum til landsins, fór pabbi á fætur um fimmleytið á morgnana, fór fram í eldhús, hitaði sér kaffi og settist yfir pappírana til að raða í skipin svo víst væri að allar hafnir landsins fengju sinn skammt. Hafragrauturinn var svo á borðum upp úr 7, en þá var klukkan nánast orðin 8, sagði hann, og allir að verða of seinir í skólann. Ekki veit ég hvort var strembnara, timbrið eða við systkinin, en væl og vol var ekki tekið gilt og ekki var setið heima vegna veðurs.

Sumarfrí hafði pabbi helst ekki tíma til að taka og "oft var ekki vinnufriður fyrir frídögum". Þegar fjölskyldan fór í sunnudagsbíltúra, brunaði Ópelinn gjarnan beint niður í Sambandsport af gömlum vana þar sem pabbi skyndilega áttaði sig, snarsnéri Ópelnum og þeysti Þingvallahringinn á malarveginum í rykmekkinum. Pabbi hafði gaman af að keyra og var mjög góður og farsæll bílstjóri. Ég man enn hvað hann var glaður þegar hann eignaðist í fyrsta skipti alveg nýjan bíl, Opel Record stationbíl, með skotti og öllu saman, en hann hentaði pabba einkar vel, því hann var mikill búmaður og átti allt af öllu í bílnum. Maður vissi jú aldrei hvenær þyrfti á þessu að halda. Þessi dæmalausa nýtni og sparsemi pabba, sem vafalaust var tilkomin úr sveitinni, fannst okkur systkinunum oft heldur í meira lagi, enda hver barn síns tíma, en sannarlega hollt veganesti ásamt ráðvendni og trúmennsku.

Pabbi var einstakt prúðmenni og friðsemdarmaður. "Sá vægir sem vitið hefur meira", sagði hann ævinlega við okkur krakkana þegar mikil stríð og stór geisuðu, hvort heldur var í skólanum eða á götunni. Þessi orð hafði hann sjálfur að leiðarljósi og fannst fleira en hann sagði.

Nú þegar öldin er brátt á enda og kynslóðin sem fædd er í byrjun aldarinnar að kveðja, verður okkur hugsað til allra þeirra breytinga sem hafa gengið yfir þessi síðustu hundrað ár. Sennilega er okkur þá öllum hollt að staldra örlítið við í hraða nútímans, athuga okkar gang og gleyma ekki alveg gömlu gildunum. Því kveð ég þig, elsku pabbi minn, með orðunum sem þú notaðir svo oft og ég skildi ekki hér áður en skil alltaf betur og betur, "að hætta skal hverjum leik þá hæst hann stendur".

Þín Þórunn.