Stefán Þormóðsson Með nokkrum orðum viljum við kveðja góðan vin og gamlan vinnufélaga, Stefán Þormóðsson. Sú vinátta hófst fyrir aldarfjórðungi þegar hann hóf störf á Landspítalanum, þar var hann vaktstjóri á vakt- og flutningadeild um árabil. Stefán átti auðvelt með að umgangast fólk, hann var kurteis, alúðlegur og greiðvikinn. Aldursmunur breytti engu því hann var ungur í anda og áhugamálin voru mörg. Handlagni hans kom vel í ljós þegar hann hnýtti blómahengi sem hann gaf samstarfsfólki sínu og þeim fylgdu blóm, oftast Sankti pálíur sem hann ræktaði sjálfur. Síðan minnir þetta blóm, sankti pálía, okkur á Stefán.

Hann ræktaði skrautfiska og gaf barnadeildum spítalans fiskabúr sem hann annaðist meðan hann vann á spítalanum. Stefán var einstaklega friðsamur og tók nærri sér að þurfa að taka á málum sem gátu spillt friði og vináttu við fólk. Það var gæfa Stefáns að kynnast Kristbjörgu sem studdi hann og hvatti til að stunda áhugamál sín og saman áttu þau góðar stundir við sameiginleg áhugamál. Þau byggðu stórt gróðurhús við húsið sitt og þar ræktuðu þau blóm og grænmeti. Í veikindum Stefáns komu mannkostir Kristbjargar vel í ljós. Hún stóð eins og klettur við hlið hans til hinstu stundar og sat hjá honum þegar hann kvaddi þessa jarðvist. Við kveðjum kæran vin og sendum Kristbjörgu og ættingjum Stefáns innilegar samúðaróskir. Guð blessi minningu Stefáns Þormóðssonar. Anna og Guðmundur.