Lis Ruth Sigurjónsson Það var í ágústmánuði 1951. Ég var nýkominn frá heimsfriðarmóti í Berlín og hugðist hafa nokkra viðdvöl á Hafnarslóð, í hinni fornu höfuðborg okkar Íslendinga.

Einhvern fyrsta dag minn í staðnum rakst ég á gamlan góðkunningja, Ásmund Sigurjónsson, sem þá var enn við hagfræðinámið, en orðinn kvæntur maður og hafði eignazt fjölskyldu. Óhætt er að segja, að þarna urðu fagnaðarfundir, og hann var ekki lengi að bjóða mér heim til sín í kvöldskattinn, sem ég auðvitað þáði með þökkum.

Þarna var það sem ég sá Lis Ruth fyrst, einkar geðþekka unga konu af suðrænum uppruna. Og hún tók mér af þeirri hlýju og elskusemi, sem ég jafnan átti eftir að njóta á heimili þeirra um langt árabil. Er ekki að orðlengja það, að þarna átti ég góða og minnisstæða kvöldstund hjá þeim hjónum við kertaljós og rausnarlegar veitingar. Ársgamall sonur þeirra, Kjartan, svaf vært í kerru sinni úti á svölunum, og það var kyrrð og enginn erill í þessu rólega hverfi. Hlý ágústnóttin var mettuð höfgum gróðurilmi; einhversstaðar kvakaði fugl í lognþerrinum.

Ekki liðu mörg ár áður þau hjónin fluttust hingað heim, og örlög þessarar ungu konu urðu þau að búa um áratugi í þessu hrjóstruga landi og heyra kveða við göfugt tungutak aftan úr öldum, stundum sungið af strigabössum. Lis Ruth kaus að halda sig við málfar uppruna síns, fremur en að eiga á hættu að misbjóða máli garpa og guða.

Eftir heimkomuna gerðist Ásmundur erlendur fréttastjóri við Þjóðviljann, og í tímans rás æxlaðist það svo, að einnig ég fór að starfa við það annálaða blað ­ og varð þar innlyksa í rúm þrjátíu ár.

Auðvitað varð samgangur okkar Ásmundar strax náinn, enda áhugamálin að mörgu leyti þau sömu. Og upp úr þessu var það, sem ég fór að gerast tíður gestur á heimili hans og kynntist Lis enn betur. Þangað var jafnan gott að koma. Aldinn faðir hans dvaldist þar í sinni bókastofu og var svipaður þeirri hugmynd manns um ættarhöfðingja, sem hann svo sannarlega var. Lis sýndi honum mikla virðingu go annaðist hann af fórnfýsi og elskusemi unz yfir lauk.

Eins og áður sagði tók Lis furðu mikla tryggð við okkar hrjóstruga land. Samt varð því ekki neitað, að "römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til", og að því kom um skeið, þegar erfiðleikar urðu í sambúð þeirra hjóna, að hún fluttist til Danmerkur. Ásmundur var þá hættur blaðamennskunni. Skömmu síðar gerði líka hann tilraun til að setjast að ytra og lagði þá fyrir sig erfiðisvinnu, þótt hann hefði ekki á slíkum störfum snert frá því á skólaárum sínum. En einnig hann hlaut að finna fyrir þeirri römmu taug, sem dregur manninn til föðurtúnanna. Og hann fluttist alfarinn til Íslands.

Núna, eftirá, finnst manni ekkert eðlilegra en að Lis Ruth kæmi út hingað aftur, þegar henni hentaði, enda gerði hún það. Ásmundur hafði þá fengið starf hjá Hagstofu Íslands, sem hæfði betur menntun hans enj erilsöm blaðamennskan hafði gert. Og nú biðu þeirra mörg ágæt ár í litlu íbúðinni við Háteigsveg. Börnin uxu úr grasi. Stórbreytingar urðu í heimspólitíkinni, margar hverjar ekki sársaukalausar fyrir gamla hugsjónamenn, en saman áttu þau þarna öruggt skjól, og Lis Ruth sýndi tryggð sína og staðfestu æ betur, einkum er halla tók undan fæti fyrir manni hennar heilsufarslega.

Eftir lát hans fyrir tveimur árum, lét hún vinnuborð hans ósnert, svo og aðrar reitur. Hún bjó að minningum sínum, lífsreynd kona, en sátt við allt og alla, þakklát fyrir það góða sem henni hafði hlotnazt, raunsæ á það hve mannlegt líf getur reynzt svipvindasamt á stundum.

Henni auðnaðist að búa jafnan við góða heilsu, og banalega hennar var stutt og án mikilla þjáninga. Að leiðarlokum er henni send virðingar- og þakkarkveðja.

Öllum ættingjum Lis Ruth Sigurjónsson og afkomendum og vinum hennar sendi ég samúðar kveðju.

Elías Mar.