Anna Ólafsdóttir Eins og Matthías kvað um föður sinn, þá koma upp í hugann kynni mín af Önnu Ólafsdóttur.

En Matthías kvað svo:

Hið innra var máttugt

og auðugt og hlýtt.

Hið ytra var hrufótt

og stórt og grýtt.

Kynni okkar Önnu hófust sumarið 1968 en þá var ég óharðnaður unglingur með stórhuga framtíðardrauma en að sama skapi litla reynslu af lífinu. Okkar kynni urðu náin og að sama skapi óx virðing mín fyrir þessari merku konu. Lífið hafði ekki farið mildum höndum um hana en sterkur vilji, einbeitni og kjarkur við erfiðar aðstæður gerði hana að mikilfenglegri konu. Konu sem skildi margbreytileika lífsins og veitti ómælt úr viskubrunni sínum.

Anna var mikill örlagavaldur í lífi mínu og barna minna, Önnu Lindu og Bjarna. Hún tók nærri sér skilnað minn við son hennar Bjarna og urðu vinarslit um nokkurra ára skeið. Báðar fundum við að tengslin yrðu ekki svo auðveldlega rofin og feginleikinn var mikill þegar við tvær náðum saman á ný. Önnu var ekki aðeins umhugað um velferð eldri barnanna tveggja heldur átti hún einnig hlutdeild í hjörtum yngri barna minna, þeirra Sigurðar Freys og Lilju Óskar sem best sýndi sig þegar þau misstu föður sinn fyrir tveimur árum.

Gengi er valt, þar fé er falt,

fagna skalt í hljóði.

Hitt varð alltaf hundrað falt

sem hjartað galt úr sjóði.

(Einar Benediktsson.) Elsku Anna mín, í guðs friði og hafðu þakkir fyrir alla umhyggju þína fyrir mér og börnum mínum.

Ættingjum og vinum Önnu sendi ég samúðarkveðjur.

Bergþóra Reynisdóttir.