BJARNI SNÆLAND JÓNSSON

Bjarni Snæland Jónsson útgerðarmaður fæddist á Hólmavík 30. janúar 1941. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Hverfisgötu 39 að morgni laugardagsins 4. september síðastliðins. Foreldrar hans voru hjónin Jón Michael Bjarnason, bóndi og starfsmaður Alþýðusambands Íslands, frá Skarði í Bjarnarfirði, f. 28. október 1907, d. 27. ágúst 1968, og Hulda Svava Elíasdóttir, húsmóðir, frá Elliða í Staðarsveit, f. 12. ágúst 1917. Systkini Bjarna eru 1) Elías Snæland Jónsson, ritstjóri og rithöfundur, f. 8. janúar 1943 á Skarði í Bjarnarfirði, giftur Önnu Kristínu Brynjúlfsdóttur, framhaldsskólakennara og rithöfundi. 2) Jóhannes Snæland Jónsson, kerfisfræðingur, f. 26. janúar 1946, giftur Agnesi Sigurþórs, bankastarfsmanni, f. 17. mars 1951, frá Eskifirði. 3) Valgerður Snæland Jónsdóttir, skólastjóri, f. 17. apríl 1950 á Skarði í Bjarnarfirði, maki Kristján Kristjánsson, viðskiptafræðingur, f. 22. september 1951 á Akureyri. Bjarni kvæntist 16. maí 1970 Önnu Rósu Magnúsdóttur, húsmóður, f. 14. júlí 1942 á Ísafirði. Foreldrar hennar voru Magnús Ástmarsson, prentari, forstjóri Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg og borgarfulltrúi í Reykjavík, f. 7. febrúar 1909 á Ísafirði, d. 18. febrúar 1970, og Elínborg Guðbrandsdóttir, húsmóðir, f. 6. ágúst 1913 í Viðvík, Viðvíkurhreppi í Skagafirði, d. 3. desember 1979. Börn Bjarna og Önnu Rósu eru 1) Hulda Sigrún, sálfræðinemi í Kaupmannahöfn, f. 2. febrúar 1971 í Reykjavík. Unnusti hennar er Kjartan Þór Halldórsson, viðskiptafræðingur, f. 2. ágúst 1970 í Reykjavík. 2) Magnús Þór, vélskólanemi f. 16. júní 1972 í Reykjavík. 3) Jón Bjarni, eðlisfræðingur, f. 27. ágúst 1975 í Reykjavík. Kjördóttir Bjarna og dóttir Önnu er Bryndís, f. 28. júní 1960 í Reykjavík, skrifstofumaður, gift Sigurði Jónssyni, ljósmyndara, f. 1. febrúar 1959 á Ísafirði. Barnabörnin eru tvö 1) Kolbrún Lilja Sigurðardóttir, nemi og verslunarmaður, f. 12. febrúar 1980 í Reykjavík, og Karen Ósk Sigurðardóttir, nemi, f. 7. september 1983 í Reykjavík. Bjarni og Anna slitu samvistir. Bjarni ólst upp á Skarði í Bjarnarfirði til 13 ára aldurs. Fjölskyldan flutti í fardögum 1954 að Svarfhóli í Borgarfirði þar sem hún bjó um tveggja ára skeið. Í fardögum 1954 flutti Bjarni ásamt fjölskyldu sinni til Ytri-Njarðvíkur og bjó þar til vorsins 1963 er fjölskyldan flutti í Kópavog. Bjarni og Anna Rósa hófu búskap í Kópavogi. Þau bjuggu um nokkurra ára skeið á Höfn í Hornafirði uns þau fluttu aftur í Kópavoginn. Síðustu árin bjó Bjarni ásamt Jóni Bjarna syni sínum á Hverfisgötu 39 í Reykjavík. Bjarni nam vélvirkjun við Iðnskólann í Keflavík og í Vélsmiðju Jóns Valdimarssonar í Ytri- Njarðvík. Í framhaldi af því stundaði hann nám við Vélskólann í Reykjavík 1962­1966 og lauk þaðan vélstjóraprófi. Á námsárum sínum starfaði Bjarni m.a. við síldarverksmiðjuna á Seyðisfirði og sem annar vélstjóri á hvalbátum Hvals hf. Að loknu vélstjóraprófi starfaði hann sem vélstjóri bæði hjá Hval hf. og einnig á gömlu Eldborginni. Hann settist aftur á skólabekk rétt fyrir 1980 og lauk stýrimannaprófi. Bjarni starfaði við eigin útgerð frá árinu 1974 til hinstu stundar, fyrst á Höfn í Hornafirði, síðar í Reykjavík. Hann gerði út Svöluna SF 3, síðar Jón Bjarnason SF 3. Hin síðustu ár gerði Bjarni út tvo smábáta, Jón Bjarnason KÓ 25 og Huldu RE 31. Magnús Þór, sonur Bjarna, starfaði með föður sínum við útgerðina og rak annan bátinn. Bjarni var mikill áhugamaður um að rétta hlut smábátaeigenda í kvótaveiðikerfinu og lagði samtökum þeirra lið. Hann var að leggja síðustu hönd á ítarlega skýrslu um þróun fiskveiða hjá smábátaeigendum er hann lést. Útför Bjarna fer fram frá Fossvogskirkju föstudaginn 10. september og hefst athöfnin kl. 15.00.