Bjarni Snæland Jónsson Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er hér að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.) Elsku bróðir, mig langar til að þakka þér samveruna með nokkrum orðum. Ég stíla pistilinn á þig ­ "þú veist hvað ég meina". Við höfum alltaf haft mjög svipuð viðhorf til lífsins og tilverunnar ­ það hefur aldrei verið nokkur vafi í okkar huga. Þetta hefur alltaf verið mjög einfalt mál í okkar augum. Það er gífurlegur fjársjóður falinn í því að eiga bróður eins og þig. Það er gífurlegur fjársjóður að eiga föður eins og þig. Það er gífurlegur fjársjóður að eiga vin eins og þig. Ég hef oft sagt þér þetta. En á skilnaðarstundum sem þessum er mikilvægt að geta deilt því með vinum og vandamönnum.

Ég varðveiti minninguna um þig, stóra bróður minn, sem hefur alltaf verið mér lifandi fyrirmynd. Það er ekki auðvelt að feta í fótsporin þín en þau standa mér fyrir hugskotssjónum eins og ljóspóstar. Það geislar mismunandi mikið út frá fólki. Þú hefur alltaf haft alveg einstaka útgeislun ­ sem einkennist af hlýju, umhyggju og væntumþykju í garð annarra. Náungakærleikur hefur verið þitt meðfædda lífsleiðarljós. Lao Tse segir á einum stað: "Hin æðri dyggð starfar ósjálfrátt og þarf ekki að halda sér á lofti." Þetta á vel við um þig.

Atburðir liðinna daga hafa orðið til þess að hugurinn hefur ósjálfrátt reikað víða. "Margs er að minnast" og gífurlega "margt er hér að þakka". Ýmis atvik úr lífinu sem legið hafa í gleymsku hafa komið upp í hugann og reynast nú ómetanlegir minningarbrunnar fyrir þann sem stendur eftir við pollann. Ég minnist t.d. hjálpsömu bræðranna í sveitinni, sem voru farnir að stjórna traktorum um átta, níu ára aldur og tóku þátt í öllum hefðbundnum sveitastörfum við hliðina á foreldrum sínum og afa nánast um leið og þeir fóru að ganga. Bræðranna sem veltu steinolíutunnunni langt utan af túni heim að bæ, án þess að vera beðnir um það, og voru næstum búnir að kveikja í öllu saman af því að þeir ætluðu að hjálpa til við að kynda bæinn. Ég varðveiti minninguna um skátana sem lifðu ævintýraheimi á Suðurnesjunum undir stjórn Jóns Valdimarssonar, þess mikilmennis sem gaf okkur svo mikið á mikilvægum uppvaxtarárum. Ég man eftir íþróttaköppunum í Ungmennafélagi Njarðvíkur þar sem lífið var tekið mjög alvarlega við fótboltaæfingar í og við gamla Krossinn og við körfuboltaæfingar uppi á Velli undir handleiðslu Boga Þorsteinssonar. Ég gleymi aldrei hvað ég var stolt af stóra bróður þegar hann stóð uppi á bekk í litla salnum í Krossinum og þandi tvöföldu harmonikkuna sína á skátaböllunum. Ég undraðist alltaf hvað þú hafðir lítið fyrir að læra á harmonikkuna, gítarinn og hljómborðið ­ það bara kom einhvern veginn af sjálfu sér. Og þú varst alltaf að semja lög ­ sem voru því miður ekki skráð á blað. Ég varðveiti minninguna um ykkur sætu strákana í Njarðvíkunum sem kepptuð í róðri fyrir hönd Njarðvíkinga á sjómannadaginn. Ó, hvað ég fann til með ykkur þegar þið töpuðuð fyrir Keflvíkingunum. En þið tókuð tapinu eins og sannkallaðar hetjur. Þið stefnduð bara að því að sigra næst. Þannig var andinn alltaf hjá ykkur ­ auðvitað vilduð þið sigra. Ég geymi minninguna um nóttina þegar við sátum með gítarana okkar og sungum hjartnæmt saman tveimur röddum "mamma ætlar að sofna" ­ en gættum okkar ekki á því að með þessu yndislega lagi héldum við einmitt vöku fyrir þeirri sem við vorum að syngja um. Við höfum oft brosað að þessu síðan. Það var eftirminnilegt þegar þið bræðurnir fóruð að læra dans ­ hvílík forréttindi fyrir okkur mæðgurnar að fá að æfa sveifluna með ykkur ­ þá var húsgögnunum vippað til hliðar svo nóg væri dansplássið á stofugólfinu og æft út í eitt. Dansnámið var tekið með trompi eins og flest annað. Ég gleymi aldrei nóttinni þegar þú hringdir utan af sjó og sagðir mér að Jón Bjarnason hefði farið niður við Papey. Það var mikill léttir þegar mér varð ljóst að þið höfðuð allir komist lífs af úr þeim sjávarháska. Ég minnist með hlýju þess hvað þið bræðurnir voruð miklir félagar allt frá þeim tíma er við bjuggum á Skarði fram til þess síðasta. Leikirnir breyttust örlítið með árunum ­ traktorinn var ekki með í leiknum eftir að flutt var suður, skylmingaleikirnir með heimatilbúnu sverðunum og skjöldunum, í anda krossfaranna, hurfu. En karfan og fótboltinn voru alltaf innan seilingar og þegar tækifæri gafst var tekin rúberta ­ yfirleitt nokkrar í einu, með Jón Hersi sem fjórða mann. Það er yndislegt að ylja sér við minningarnar um hláturinn í ykkur við spilaborðið. Maður fer ósjálfrátt að brosa þegar maður hugsar til ykkar.

Þegar þú eignaðist fjölskyldu sjálfur sýndir þú henni sömu kærleiksríku umhyggjuna sem þér hefur ætíð verið svo eðlileg. Það hefur verið þitt hlutskipti í lífinu að hlúa að fólki. Börnin í kringum þig hafa notið þess ríkulega ekki síður en fullorðna fólkið ­ það hændust allir að þér án þess að þú gerðir nokkuð í því. Það er þessi sérstaka meðfædda manngæska sem hefur alltaf streymt frá þér. Margt annað hefur komið upp í hugann síðustu daga sem ég mun eiga með sjálfri mér eða rifja upp með okkar nánustu undir nokkur augu. Elsku bróðir, þakka þér fyrir þá góðu, lifandi fyrirmynd sem þú ert mér og okkur öllum. Þakka þér fyrir kærleiksríku minningarnar, augnaráðið, brosið, léttu lundina, látleysið, hláturinn, hlýjuna, hvatninguna, umhyggjuna og væntumþykuna, ­ allt þetta er og mun ætíð verða hluti af okkar lífi. ­ Ómetanlegt veganesti fyrir okkur, sem stöndum eftir, við pollann þegar þú hefur lagt frá landi ­ einn, að þessu sinni, á vit hins æðsta. Við eigum eftir að ljúka nokkrum málum hér áður en við leggjum upp í sömu ferð.

Elsku frændsystkin ­ þegar frá líður mun koma enn betur í ljós hvað allar góðu minningarnar sem þið eigið um kærleiksríka, einstaka pabbann ykkar eru og verða ykkur mikill fjársjóður í framtíðinni.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem.) Þín systir, Valgerður.