Bjarni Snæland Jónsson Hvað er það sem við munum um pabba okkar? Hláturinn. Hnerrarnir. Olíublettir á handsápunni. Glettnisbrosið þegar eitthvað sérstaklega gáfulegt hrökk upp úr afkvæmunum. Útsjónarsemin og kímnigáfan, eins og þegar jólasteikin var skorin með dúkahníf því eitthvað var fátæklegt af eldhúsáhöldum. Við vitum að við áttum besta pabba í heimi og í huganum eigum við ljóslifandi myndir af honum. Bernskuminningar: þrír litlir gríslingar að veltast um á gólfinu með pabba í heimatilbúnum leik sem kallaðist Bilaður ljósastaur. Stór og hlý hönd, hrjúf af vinnu, sem umlauk okkar litlu hendur ­ allar í einu ef því var að skipta. Pabbi hestur sem auðveldlega gat brokkað um stofugólfið með þrjá krakkaorma á bakinu. Pabbi með gömlu 8 mm kvikmyndavélina og sterku ljósin á jólum, á afmælum eða í ferðalögum. Verkaskiptingin þegar reyna átti að koma í veg fyrir að pabbi færi á sjóinn: eitt okkar lá fyrir dyrunum meðan hin tvö héngu hvor í sínum fætinum. Pabbi með gítarinn, pabbi með harmónikuna. Pabbi við orgelið að semja tónlist við ljóð úr Skólaljóðunum. Pabbi í símanum með bláan kúlupenna í höndinni, krotandi litlar örvar og fleka með fána. Stórar kippur af lyklum sem enginn hafði lengur hugmynd um að hverju gengu. Pabbi að elda jólamatinn, alltaf með pakkasósu til vara ef vera skyldi að sósan mislukkaðist, en það gerðist reyndar aldrei. Pabbi við bókhaldið með stóru reiknivélina sína. Frímerkjakassinn hans sem hann sagðist ætla að dunda sér við í ellinni. Það voru margar heitar rökræðurnar sem við áttum við hann um framhaldslíf og eðli tilverunnar og hann brosti alltaf út í annað, umburðarlyndur við efasemdabörnin sín. Sjálfum fannst honum að það hlyti að vera eitthvað fyrir handan ­ það væri of tilgangslaust ef þetta líf væri allt og sumt. Hann var forvitinn um hvað tæki við, en aldrei hræddur. Það er gott að muna að hann skildi hluta af sér eftir í okkur öllum. Við vitum að það sem við getum gert í minningu pabba er að vinna vel úr þessu lífi, því það var alltaf efst í hans huga að gleðja okkur og gera sitt allra besta fyrir okkur.

Það eina sem hann óskaði sér í laun fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur var loforð um að smygla kannski viskýflösku til hans á elliheimilið þegar þar að kæmi. Brosið hans mun fylgja okkur alla ævi.

Hulda Sigrún, Magnús Þór og Jón Bjarni.